Handbolti

Emsdetten skylt að greiða KA uppeldisbætur fyrir Odd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oddur Gretarsson.
Oddur Gretarsson. Vísir/Valli
Áfrýjunardómstóll Handknattleikssambands Evrópu, EHF, kvað upp dóm í gær sem skyldaði þýska úrvalsdeildarliðið Emsdetten til að greiða KA á Akureyri uppeldisbætur fyrir hornamanninn Odd Gretarsson.

Oddur fór frítt frá Akureyri handboltafélagi til Emsdetten í sumar en þýska félagið þurfti engu að síður að borga uppeldisbætur í samræmi við reglur sambandsins. Emsdetten neitaði og þegar dómstóll EHF úrskurðaði í nóvember að félaginu bæri að greiða bæturnar var málinu skotið til áfrýjunardómstólsins.

Forráðamenn Emsdetten báru meðal annars fyrir sig að innan Evrópu ætti að ríkja frjáls för launþega og að Evrópulög tækju fyrir greiðslur sem þessar.

HSÍ var umboðsaðili Akureyringa í málinu og segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður sambandsins og hæstaréttarlögmaður, að niðurstaðan hefði verið skýr á báðum dómsstigum.

„Í stuttu máli, að gjaldtaka sem þessi er lögmæt og stangast ekki á við Evrópulöggjöfina,“ segir Guðmundur og bætir við að málið eigi sér ekki fordæmi innan handboltans og niðurstaðan merkileg fyrir þær sakir.

Í málflutningi Þjóðverja var meðal annars haldið fram að HSÍ hefði ekki umboð til að rukka uppeldisbætur fyrir KA og að ekki væri hægt að bera saman uppeldi handboltamanns í Þýskalandi og Íslandi. Þeim rökum var vísað frá í niðurstöðu dómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×