Handbolti

Lárus varði sjö víti en FH vann samt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lárus Helgi Ólafsson, markvörður HK.
Lárus Helgi Ólafsson, markvörður HK. Vísir/Andri Marinó
Lárus Helgi Ólafsson, markvörður HK, átti magnaðan leik í Olís-deild karla í handbolta í kvöld en frábær frammistaða hans dugði þó ekki botnliði deildarinnar því FH vann þriggja marka sigur á HK í Digranesinu, 25-22.

Lárus Helgi Ólafsson varði alls sjö víti FH-inga í leiknum og hélt sínum mönnum inn í leiknum en hann varði alls 22 skot FH-liðsins. Frábær frammistaða hans var ekki nóg og FH-ingar lönduðu báðum stigunum. FH-ingar fengu ófá víti í leiknum og Lárus gat ekki stoppað þau öll.

Vítanýting FH í Digranesinu í kvöld var eitt mark í átta vítum en Lárus Helgi varði 88 prósent af vítunum sem hann reyndi við í leiknum.

Þetta var langþráður sigur fyrir FH-liðið sem var aðeins búið að ná í eitt stig í síðustu þremur leikjum og vann síðast leik 17.nóvember.

HK var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, en FH vann upphafskafla seinni hálfleiksins 6-2 og komst tveimur mörkum yfir, 18-16. Andri Berg Haraldsson var öflugur í seinni hálfleiknum og skoraði mörg mikilvæg mörk þegar FH-liðið var að snúa við leiknum.



HK - FH 22-25 (14-12)

Mörk HK: Þorgrímur Smári Ólafsson 5, Leó Snær Pétursson 4, Andri Þór Helgason 4, Garðar Svansson 3, Guðni Már Kristinsson 3, Valdimar Sigurðsson 2, Aron Gauti Óskarsson 1.

Mörk FH:  Andri Berg Haraldsson 5, Daníel Matthíasson 5, Magnús Óli Magnússon 5, Ísak Rafnsson 4, Benedikt Reynir Kristinsson 2, Ragnar Jóhannsson 2, Hlynur Bjarnason 1, Andri Hrafn Hallsson 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×