Íslenski boltinn

Birkir Sveinsson: Má fresta leik alveg fram að fyrsta sparki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fjölnismenn mæta Stjörnunni í lokaleik 20. umferðar í dag.
Fjölnismenn mæta Stjörnunni í lokaleik 20. umferðar í dag. Vísir/Stefán
Fjölnir og Stjarnan mætast í mikilvægum leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag klukkan 16.30 á Fjölnisvelli. Fjölnismenn berjast fyrir sæti sínu í deildinni en Stjarnan er í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn við FH.

Liðin áttu að mætast á sunnudaginn en Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, lét fresta honum hálftíma áður en leikurinn átti að hefjast vegna veðurs. Mörgum kom á óvart hversu seint Garðar tók ákvörðunina, en hann var í fullum rétti þó stutt væri í leik.

„Það má fresta leik alveg fram að fyrsta sparki. Eftir að liðin eru komin á leikstað er þetta alfarið í höndum dómarans,“ segir Birkir Sveinsson, mótastjóri Knattspyrnusambands Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

Bæði lið þurfa á sigri að halda, en hann hefur mikil áhrif bæði á toppbaráttuna í deildinni sem og botnbaráttuna. Því munar um þessa auka tveggja daga hvíld sem bæði lið fengu vegna frestunar leiksins. Á sama tíma var spilað bæði á Hlíðarenda í Reykjavík, Kópavogi og í Hafnarfirði.

„Ég var ekki á staðnum en dómarinn mat aðstæður svona. Þær geta verið misjafnar og þær eru ekkert eins á öllum völlum. Við verðum bara að treysta dómaranum fyrir þessu,“ segir Birkir.

Fjölnismenn eru með 19 stig í níunda sæti Pepsi-deildarinnar og geta endanlega kvatt falldrauginn takist þeim að leggja Stjörnuna að velli í kvöld. Fari svo eru FH-ingar heldur betur komnir í bílstjórasætið í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, en þeir eru með þriggja stiga forskot á Garðbæinga eftir sigur á Fram á sunnudaginn. Stjörnumenn verða að vinna í kvöld til að jafna við FH-inga í baráttunni á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×