Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Valur 1-0 | Framarar úr fallsæti

Tómas Þór Þórðarson á Laugardalsvelli skrifar
Vísir/Valli
Það var fyrir einu ári í dag sem Fram vann síðast deildarleik á Laugardalsvelli. Safamýrarpiltar héldu upp á afmælið með öðrum sigri, nú á erkifjendum sínum í Val, 1-0.

Fram búið að vinna tvo leiki í röð í Pepsi-deildinni eftir sigur á Þór fyrir norðan í síðustu umferð. Það var þó alltaf ljóst að Framarar þyrftu að gera miklu meira til að vinna Val í dag enda töluvert betra lið en Þórsliðið.

Og það gerðu þeir blákæddu. Þeir tóku með sér allt það jákvæða úr leiknum gegn Þór; baráttuna, spilið, varnarleikinn og viljann, og bættu í á Laugardalsvelli í kvöld. Sigur þeirra var sanngjarn.

Ekki var mikið að gerast í fyrri hálfleiknum og fréttist af mönnum sem hreinlega fóru heim í hálfleik. Framarar þó miklu betri aðilinn og Jóhannes Karl Guðjónsson að spila vel. Já, hann getur þetta ennþá.

Jói Kalli fékk frjálst hlutverk á miðjunni; var út um allt og dreifði spilinu ágætlega. Hann átti skot nánast úr kyrrstöðu í slána eftir fallegan samleik við Viktor Bjarka. Í heildina var þetta líklega besti leikur landsliðsmannsins fyrrverandi í sumar.

Kristinn Freyr Sigurðsson skaut og skaut á markið fyrir Valsmenn, en öll skotin annaðhvort máttlaus eða langt framhjá. Honum gékk mjög erfiðlega inn á miðjunni og var skipt út af í seinni hálfleik.

Sóknarleikur Valsmanna var skelfing. Ekkert lífsmark í mönnum, nema kannski helst Sigurði Agli Lárussyni sem átti nokkra eitraða boltann inn á teiginn. Hvort Valsmenn söknuðu Daða Bergssonar svona mikið verður væntanlega að koma í ljós í næstu leikjum, en fram á við voru Hlíðarendapiltar daprir.

Framarar voru áfram betri aðilinn í seinni hálfleik og fengu dauðafæri eftir klukkustundar leik þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson, sem hefur gert svakalega mikið fyrir Fram-liðið síðan hann kom úr meiðslum, slapp einn í gegn eftir sendingu Hauks Baldvinssonar.

Guðmundur komst einn á móti Fjalari í markinu, en lét Magnús Má Lúðvíksson hlaupa sig uppi og tækla boltann í horn. Mögulega hægasta spretthlaup sögunnar, en frábærlega gert hjá Magnúsi Má.

Heimamenn skoruðu svo markið skömmu síðar og um það verður engum öðrum en Fjalari Þorgeirssyni kennt. Hann ákvað að slá boltann upp í loftið eftir skot Orra Gunnarssonar á markið og var Ingiberg Ólafur Jónsson fyrstur að átta sig og stangaði knöttinn í netið yfir varnarlausan Fjalar.

Það sorglega er að nokkrum sekúndum áður fékk Fjalar tækifæri til að grípa hættulausa hornspyrnu Jóhannesar Karls en þar ákvað hann að slá boltann líka út úr teignum. Þetta allt saman aðeins nokkrum dögum eftir að Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur Pepsi-markanna, efaðist um framtíð Fjalars í efstu deild.

Valsmenn reyndu með veikum mætti að jafna metin, en varnarlína Framara hélt betur en oft áður í sumar. Í heildina spilaði vörnin vel með Denis Cardaclija traustan fyrir aftan sig. Sá nýtur þess að fá loks tækifæri í efstu deild.

Barátta Framara var til fyrirmyndar. Þeir spiluðu á styrkleikum sínum í dag, voru skynsamir og reyndu ekki hluti sem gátu skapað hættu. Það var sjálfstraust í liðinu og líður strákunum eflaust miklu betur að sjá liðið ekki lengur í fallsæti.

Valsmenn voru ekki líkir sjálfum sér miðað við síðustu tvo leiki þar sem sóknarleikurinn var skarpur og beinskeittur. Valsmenn voru undir í baráttunni og töpuðu leiknum sanngjarnt. Þeir áttu ekkert skilið úr þessum leik.

Guðmundur Steinn: Þetta er ekki sunnudagaskóli

"Trúin er það eina sem breyttist," sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson, framherji Fram, við Vísi eftir sigurinn á Val í kvöld, aðspurður hvað hefði breyst hjá liðinu í síðustu tveimur leikjum sem báðir unnust.

"Við vorum að gera fína hluti úti á vellinum inn á milli, en það skorti sjálfstraust í liðið. Það sást bara á spilamennskunni."

"Við náðum að virkja sigurinn fyrir norðan á jákvæðan hátt og tókum það með okkur inn í leikinn. Við vorum smá opnir í fyrri hálfleik, en við breyttum því í seinni hálfleik og þá aldrei spurning um hvort liðið myndi vinna."

Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram, sendi sínum mönnum skilaboð í gegnum fjölmiðla á dögunum þar sem hann sakaði þá um baráttuleysi. Hún var til staðar í dag.

"Þetta er ekki sunnudagaskóli. Við erum klárlega búnir að bæta í baráttuna og nú berjast menn fyrir liðið og liðsfélagana," sagði Guðmundur Steinn, en hversu fínt verður að sjá liðið ekki í fallsæti í bili?

"Það er mikill léttir að vera ekki í þessum sætum sem senda mann ekki niður, en það er klárt að 15 stig bjarga mann ekki. Við erum ekki hættir."

Magnús Gylfason: Baldurs-sólin blindaði Fjalar

"Það vantaði allan þann kraft og vilja sem maður hefur séð hjá liðinu í síðustu leikjum. Ógnin var engin fram á við og holningin á liðinu léleg," sagði Magnús Gylfason, þjálfari Vals eftir leikinn.

Daði Bergsson, kantmaðurinn öflugi, var ekki með í kvöld eftir frábæra frammistöðu í síðasta leik vegna meiðsla. Söknuðu Valsmenn hans svona mikið?

"Miðað við síðustu tvo leiki söknuðum við hans, en andskotinn hafi það, við verðum að þola það að einn maður meiðist. Sóknarleikurinn var allavega mjög lélegur," sagði Magnús.

"Við áttum ekkert skilið úr þessu og líklega var þetta sanngjarn sigur. Hugsanlega voru menn komnir upp í skýin eftir tvo sigra, en þannig voru menn ekki í undirbúningnum. Við ætluðum okkur sigur í dag en ég veit ekki hvar menn voru í dag."

Aðspurður hvort hans menn hafi á einhverjum tímapunkti komist í takt við leikinn var svarið einfalt: "Nei."

Hann hélt áfram: "Á smá köflum létum við boltann ganga, en þá var það svo hægt að það var lítil ógn af því. Fótboltinn sem við höfum verið að spila í ár og í fyrra var ekki í gangi í dag. Sérstaklega ekki eins og við vorum að spila síðustu tvo leiki."

Fjalar Þorgeirsson, markvörður Vals, gerði mikil mistök í markinu. Pepsi-mörkin ræddu það í síðasta leik hvort hans tími væri kominn í efstu deild.

"Ég virði þeirra skoðun en það er ekki mín skoðun. Ég hefði ekki haft hann í markinu í dag ef ég teldi hann búinn að vera," sagði Magnús, en kennir hann Fjalari ekki um markið?

"Eigum við ekki að kenna sólinni hans Baldurs um markið, hann var eitthvað blindaður. En vissulega hefði hann getað gert betur þar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×