Bæjarstjórnir Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs létu gera sérstakt myndband til að kynna sveitarfélögin sem þjónustumiðstöð vegna olíuleitar á Drekasvæðinu til að sýna á fundum með fulltrúum olíuleitarfélaganna. Sameiginlegt markaðsátaks bar svo ávöxt í byrjun vikunnar þegar tilkynnt var að Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað hefðu verið valin sem starfssvæði landþjónustu Eykons vegna bæði olíuleitar og olíuvinnslu.
Sveitarfélögin tóku höndum saman með formlegum samstarfssamningi í desember árið 2012 um að vinna að því að tryggja svæðinu þetta verkefni. Áður höfðu ráðamenn Fjarðabyggðar um eins árs skeið unnið einir að málinu og boðið iðnaðarhöfnina á Reyðarfirði sem valkost. Þeim var þá ráðlagt að fá Fljótsdalshérað með í dæmið vegna alþjóðaflugvallar og þjónustufyrirtækja á Egilsstöðum, eins og hótela og verslana.
Í Fjarðabyggð búa um 4.700 manns en þegar Fljótsdalshérað bættist við fór samanlagður íbúafjöldi upp í 8.200 manns. Með því að leggja saman kraftana styrktu sveitarfélögin á Mið-Austurlandi sig í sessi, ekki síst gagnvart Akureyri, en ráðamenn Eykons hafa upplýst að í raun hafi valið aðeins staðið milli þessara tveggja staða.
Á þessu stigi er óvíst hvort olíuboranir hefjast á Drekasvæðinu. En fari svo að þar finnist olía gætu áhrifin orðið umtalsverð á því svæði sem þjónustar vinnsluna. Borgir og bæir í Noregi eru nærtæk dæmi en þar varð Stafangur fyrsti olíubærinn. Þar byggðist ekki aðeins upp tækniþjónusta heldur fylgdu í kjölfarið skrifstofur olíufélaga og opinberra stofnana. Þar eru til dæmis bæði höfuðstöðvar Olíustofnunar Noregs og höfðstöðvar Statoil, stærsta fyrirtækis Norðurlanda.