Skoðun

Sérstakt átak í upplýsingamiðlun Garðabæjar

Huginn Freyr Þorsteinsson skrifar
Aðgengi bæjarbúa að upplýsingum um rekstur og ákvarðanir í hverju sveitarfélagi eru forsenda þess að sátt ríki um stjórnun bæjarins. Krafan um gegnsæi er krafa um að almenningur geti nálgast þessar upplýsingar með einföldum hætti til að mynda sér skoðun á skilvirkni bæjarkerfisins.

Hjá mörgum stærstu sveitarfélögum landsins hefur hin síðari ár náðst markverður árangur í að gera slíkar upplýsingar aðgengilegar og skýrist það m.a. af tilkomu netsins.

Hjá Garðabæ má nálgast fundargerðir nefnda og eru helstu fjárhagsupplýsingar bæjarins aðgengilegar á vefnum. Þannig er hægt að ná í ársreikning bæjarins aftur í tímann og glöggva sig á helstu rekstrartölum bæjarins.

Þó að mikið hafi áunnist hin síðari ár í að gera fjárhagsupplýsingar opinberra aðila aðgengilegar almenningi er verulegt rúm til að gera enn betur. Garðbær gæti raunar tekið forystu í þessum efnum og leggur FÓLKIÐ- í bænum til að það verði sérstakt tilraunasveitarfélag á Íslandi í að gera fjárhagsupplýsingar aðgengilegri bæjarbúum.

Ekki nægir að setja helstu bókhaldsupplýsingar ársreikninga á netið heldur þarf að vinna úr upplýsingunum þannig að þær séu skiljanlegar þeim sem vilja leita þeirra. Styðja má við fjármálalæsi með skipulagðri framsetningu gagna.

Þetta má gera með tvennum hætti. Hægt er að gera grunngögnin aðgengileg hverjum þeim sem vilja til að útbúa eigin gögn og auðvelda þannig frekari framsetningu á þeim. Þannig hafa ýmis fyrirtæki sérhæft sig í að nýta sér grunngögn til að setja slíka upplýsingar fram þannig að þær verði skiljanlegar. Gott dæmi um eitt slíkt er íslenska sprotafyrirtækið Datamarket.

Einnig getur sveitarfélagið látið vinna úr þessum gögnum helstu lykilstærðir til upplýsinga fyrir bæjarbúa. Gera má einfaldar myndir sem sýna hversu hátt hlutfall útsvars fer í stóra málaflokka eins og skólamál, rekstur stjórnsýslu eða æskulýðs- og íþróttamál. Þá má bæta við myndum um þróun skulda, tekna og gjalda. Ótal fleiri atriði er hægt að týna til en fyrirmynda má líka leita víða hvort sem það er hjá fyrirtækjum eða opinberum aðilum erlendis.

Hugmyndinni er ekki varpað hér fram til að gera lítið úr þeim upplýsingum, sem þegar er að finna hjá bænum, heldur fremur til að styðja við áframhaldandi þróun þessarar vinnu.

Með einföldum hætti og litlum tilkostnaði er hægt að stórbæta aðgengi almennings að þessum upplýsingum og ætti að vera auðvelt að sameinast um slík markmið.

Huginn Freyr Þorsteinsson

Höfundur, situr í 4 sæti M-Lista í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×