Skoðun

Hvers vegna Í-listinn?

Gísli Halldór skrifar

Mörgum kom á óvart þegar fréttist að Í-listinn myndi tefla mér fram sem bæjarstjóraefni sínu.

Einhverjir töldu víst að ég færi í framboð fyrir Bjarta framtíð, sumir að ég færi með Framsókn og einhverjir vonuðu að ég legði Sjálfstæðisflokknum lið með einhverjum hætti. Flestir vilja sjálfsagt vita hvers vegna þetta varð niðurstaðan.

Það er meira en ár síðan ég ákvað að gefa ekki aftur kost á mér fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Engu að síður hef ég gaman af þátttöku í bæjarpólitíkinni og tel mig hafa mikið til málanna að leggja í úrbótum á stjórnsýslu bæjarins. Ég hef því lengi velt því fyrir mér hvernig ég teldi mig best koma bæjarbúum að gagni.

Augljós undiralda er í íslenskum stjórnmálum í dag, þeim er opna vilja augun. Gömlu flokkarnir með kreddum sínum og rykföllnu hagsmunaöflum hafa valdið kjósendum í samfélaginu miklum vonbrigðum.

Vissulega eru bæjarmálaflokkar ekki jafnbundnir í þessum efnum og þingflokkarnir, en ekki frjálsir samt. Þó að samstarf í bæjarstjórn hafi um margt verið frábært á kjörtímabilinu er engu að síður uppi hávær krafa kjósenda um uppstokkun.

Vissulega hefði Björt framtíð verið mögulegur farvegur, en ég hef enn ekki áttað mig nógu vel á því hvaða flokkur það verður til að setja nafn mitt við hann.

Eftir að stillt var upp á Í-lista, Lista íbúanna, kom hinsvegar í ljós að Í-listinn er sannarlega orðinn þverpólitískt afl, óháð stjórnmálaflokkum. Í-listinn er því að mínu mati skýrt svar við óskum kjósenda um breytingar frá flokksræði gömlu flokkanna.

Á Í-listanum er góð blanda af fólki með margvíslegan bakrunn víðsvegar úr samfélaginu.

Prýðilegur kokteill af íbúum Ísafjarðarbæjar. Þetta er ekkert verra eða betra fólk en finna má á öðrum listum eða á götum bæjarins. Þetta er fólk sem vill gera vel fyrir bæinn sinn. Þetta er hópur sem ekki hefur stefnu landsfundar á bak við sig. Í-listinn mun sækja sína stefnu til íbúanna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×