Handbolti

Halldór Jóhann ráðinn til FH: "Mikil áskorun fyrir mig"

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Halldór Jóhann fer úr kvennaboltanum aftur í karlaboltann.
Halldór Jóhann fer úr kvennaboltanum aftur í karlaboltann. Vísir/Stefán
„Það hefur tekið svona viku að fara yfir þessi mál en svo var þetta klárað núna um helgina,“ segir Halldór Jóhann Sigfússon, nýráðinn þjálfari FH, í samtali við Vísi en Halldór Jóhann gekk frá þriggja ára samningi við FH-inga í dag. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu í kvöld.

„FH kom að tali við mig eftir að þetta gekk ekki upp hjá mér í Eyjum og viðræður hafa tekið stuttan tíma. Ég er bara virkilega sáttur með að FH sýnir mér það traust að bjóða mér starfið en þetta er mikil áskorun fyrir mig.

Halldór Jóhann hefur stýrt kvennaliði Fram undanfarin tvö ár. Hann gerði liðið að Íslandsmeisturum í fyrra á sínu fyrsta tímabili en hann missti marga góða leikmenn síðasta sumar og féll liðið úr keppni í átta liða úrslitum fyrr í mánuðinum. Honum fannst tími til kominn að prófa eitthvað nýtt.

„Ég var með tveggja ára samning við Fram sem ég kláraði. Ég er búinn að eiga frábær ár í Fram, bæði sem leikmaður og fyrirliði karlaliðsins og svo sem þjálfari kvennaliðsins. Mér fannst kannski tími til kominn að skipta um umhverfi en ég hafði líka alltaf áhuga á að fara í karlaboltann. Ég var bara að leita að réttum tímapunkti,“ segir Halldór Jóhann við Vísi.

ÍBV og fleiri lið reyndu að fá Halldór Jóhann til starfa en hann er ánægður með nýjan áfangastað.

„Það voru nokkuð lið sem sýndu mér gríðarlegan áhuga þegar ég tilkynnti að ég yrði ekki áfram með Framliðið. Þau höfðu samband við mig en þegar þetta gékk upp með FH var þetta aldrei spurning. FH er stór klúbbur og mikil áskorun fyrir mig að fá að starfa í þannig umhverfi,“ segir Halldór Jóhann.

FH-liðið á nú í mikilli baráttu við erkifjendur sína í Haukum í undanúrslitum Íslandmótsins en eftir að vinna fyrstu tvo leikina voru FH-ingar niðurlægðir á Ásvöllum í kvöld. Það skiptir Halldór litlu máli hversu langt FH-liðið kemst að þessu sinni.

„Það vita allir að það býr mikið í þessu liði og þarna eru góðir leikmenn. Vonandi fer liðið bara sem lengst. Það gerir mitt starf hvorki erfiðara né auðveldara hvernig sem fer núna. Mitt fyrsta verk verður alltaf að skoða leikmannahópinn og reyna halda sem flestum leikmönnunum. Eftir það verður svo tekin ákvörðun um hvort við þurfum að styrkja okkur,“ segir Halldór Jóhann Sigfússon.

Einar Andri Einarsson, núverandi þjálfari FH, tekur við liði Aftureldingar í sumar en það vann sér inn sæti í Olís-deildinni á ný fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×