Handbolti

„Frussaði næstum pulsunni“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðjón L. stóð fastur á sínu í Austurberginu.
Guðjón L. stóð fastur á sínu í Austurberginu. fréttablaðið/stefán
„Mér fannst þetta óíþróttamannsleg framkoma gagnvart gestaliðinu,“ segir Guðjón L. Sigurðsson, eftirlitsdómari á viðureign ÍR og HK í efstu deild karla á fimmtudaginn. Heimamenn unnu 36-30 sigur en í leiknum vígðu þeir nýjan varamannabekk sem vakti mikla athygli. Síðari bekkurinn er í smíðum en var ekki klár á fimmtudagskvöldið.

ÍR-ingar sátu á bekknum í fyrri hálfleik og létu fara vel um sig. Lið í handbolta hafa sætaskipti í hálfleik og ákváðu ÍR-ingar að nýta tækifærið og víxla á bekkjum. Guðjón tók það ekki í mál.

„Ég var búinn að nefna þetta við þá fyrir leik. Mér fannst í góðu lagi að nota bekkina en það þýddi ekkert að víxla þeim í hálfleik,“ segir Guðjón. Hann nýtti tækifærið eins og fleiri í hálfleik, fór fram í veitingasöluna og fékk sér pylsu.





„Ég var næstum því búinn að frussa henni út úr mér þegar ég sá þetta,“ segir Guðjón sem var ekki sáttur þegar hann sá að ÍR-ingar voru búnir að víxla bekkjunum eftir allt saman í hálfleik. Hann segir vissulega ekkert í reglum að bekkir þurfi að vera eins beggja vegna. Í hans huga snúist þetta einfaldlega um heilbrigða skynsemi.

„Það hefur ekki reynt á þetta áður,“ segir Guðjón sem trúir ekki að aðrir eftirlitsmenn hefðu leyft ÍR-ingum að víxla bekkjum. Honum finnst hins vegar framtak ÍR-inga til fyrirmyndar enda kominn tími til að félög hugsi sinn gang varðandi varamannabekki sína.

„Ég hef verið að hnýta aðeins í félögin varðandi þessa trébekki. Þeir eru ekki bjóðandi íþróttamönnum í heilan leik og eru hreinlega dónaskapur,“ segir Guðjón. Bekkirnir séu alltof lágir og veiti engan stuðning. Guðjón er reyndur á alþjóðavettvangi þar sem allajafna er boðið upp á sæti, ýmist með örmum eða ekki.

Guðjón segir ÍR-inga þó aðeins þurfa að laga bekkina sína til. Þannig þurfi að vera fjórtán sæti á hvorum bekk en voru ellefu á fimmtudaginn. „Ég hrósa þeim fyrir framtakið. Þetta var flott hjá þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×