Íslenski boltinn

Eiður Smári: Það magnaðasta sem ég hef upplifað með landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Valli
Eiður Smári Guðjohnsen átti enn eina flotta innkomu af bekknum þegar hann spilaði seinni hálfleikinn í endurkomusigrinum í Sviss.

„Þetta var sérstakur leikur og það er gaman að hafa tekið þátt í þessu. Það var ótrúlegt hvernig þetta þróaðist allt saman. Þetta er það magnaðasta sem ég hef upplifað með landsliðinu. Við sýndum mikinn karakter að hafa komið til baka á móti svona sterku liði á útivelli,“ sagði Eiður Smári en hvað fannst honum hann koma með inn í íslenska liðið í seinni hálfleiknum í Sviss.

„Mér fannst ég ekkert spila neitt sérstaklega vel og þetta var ekki einn af mínum bestu landsleikjum. Ég kom kannski með aðeins meiri ró á boltann og ég held að menn í kringum mig hafi róast aðeins líka. Við náðum að halda boltanum betur innan liðsins. Ég reyndi að finna mér stöðu sem opnaði meira fyrir aðra og kom kannski með aðeins meira sjálfstraust inn í liðið í seinni hálfleik,“ segir Eiður.

En á hann ekki að kom inn í byrjunarliðið á móti Albaníu? „Ég læt bara aðra dæma um það. Ég er bara hérna og ég er klár. Þetta er í rauninni ekkert mál. Ég hef notið þess að koma inn á í síðustu landsleikjum og það hefur gengið nokkuð vel. Það er bara gaman af þessu. Svo mega bara aðrir dæma um það hvort ég eigi að byrja eða ekki,“ segir Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×