Íslenski boltinn

Gunnlaugur mun ræða við Garðar um framtíð hans hjá ÍA

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson
Gunnlaugur Jónsson MYND/ARNÞÓR
Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrr í þessum mánuði mun framtíð framherjans Garðars Bergmanns Gunnlaugssonar vera í óvissu eftir að knattspyrnudeild ÍA sagðist ekki hafa áhuga á að nýta hans krafta í framtíðinni.

Gunnlaugur Jónsson var í gær ráðinn þjálfari ÍA og hans fyrsta verkefni er núna að búa til sterkan leikmannahóp til að koma liðinu upp í Pepsi-deildina á ný.

„Liðið stendur uppi með fæst stig í sögu tólf liða deildar eftir tímabilið í sumar og féll því sannfærandi,“ sagði Gunnlaugur Jónsson í samtali við Vísi í gær.

Skagamenn féllu sannfærandi úr Pepsi-deildinni í sumar og er mikið verk óunnið hjá nýja þjálfaranum.

„Við þurfum að vinna vel að því að búa til sterkan leikmannahóp og fá kannski stráka í gang sem hafa ekki verið að sýna sitt besta að undanförnu.“

„Ég mun spjalla við Garðar [Gunnlaugsson] sem fyrst og sjá hvernig staða hans er. Ég veit ekki alveg hvort þessar fréttir voru nákvæmlega réttar en það fór víst fram einhver fundur milli hans og stjórnarinnar fyrir síðasta leik Skagamanna og menn túlkuðu þann fund á ýmsa vegu. Við skoðum hans mál sem fyrst og sjáum síðan til. Garðar er frábær leikmaður og við verðum að sjá hvernig hugur hans stendur gagnvart nýjum þjálfara og því næsta mál á dagskrá er að heyra í honum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×