Íslenski boltinn

Freyr: Þær hafa sínar skoðanir en svo bara ræð ég

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson er nýr þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta.
Freyr Alexandersson er nýr þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta. Mynd/Valli
Freyr Alexandersson stýrir íslenska kvennalandsliðinu í fyrsta sinn í kvöld þegar liðið tekur á móti Sviss á Laugardalsvellinum í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2015.

„Þetta er ótrúlega gaman og það eru miklir fagmenn bæði í umgjörðinni sem og leikmennirnir sjálfir. Þetta er frábært umhverfi til að vinna í," segir Freyr Alexandersson. Hann segist hafa fengið góðar móttökur frá stelpunum.

„Stelpurnar eru ótrúlega jákvæðar og mjög einbeittar. Ég er búin að reyna að hafa fundina stutta þannig að við séum ekki að taka þetta allt á lokadegi. Við ætlum að taka þetta í skrefum og þær eru opnar og tilbúnar að spyrja. Þær vilja læra og þetta er frábær hópur," segir Freyr og hann ætlar að nýta sér það að flestir leikmenn liðsins hafa öðlast mikla reynslu á síðustu árum.

„Það er um gera að reyna að sækja í reynsluna. Þær hafa sínar skoðanir en svo bara ræð ég," sagði Freyr. Hann býst við því að það hafi góð áhrif á liðið að fá tækifæri til að kveðja leiðtoga sinn, Katrínu Jónsdóttur, í kvöld.

„Ég vona að þetta „mótiveri“ félaga hennar í liðinu. Hún er frábær félagi og ég vona að þetta hvetji liðið í að kveðja hana með sigri," sagði Freyr að lokum.

Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 18.30 á Laugardalsvellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×