Íslenski boltinn

Ekki verra að kveðja Kötu með sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir á æfingu með Söru Björk Gunnarsdóttur sem var varafyrirliði hennar hjá landsliðinu.
Katrín Jónsdóttir á æfingu með Söru Björk Gunnarsdóttur sem var varafyrirliði hennar hjá landsliðinu. Mynd/Arnþór
Freyr Alexandersson, nýráðinn þjálfari kvennalandsliðsins, valdi Katrínu Jónsdóttur í fyrsta landsliðshópinn sinn sem var tilkynntur í dag en það bjuggust kannski flestir við því að Kata væri búin að spila sinn síðasta landsleik.

Katrín kvaddi landsliðið með tárum eftir 0-4 tap á móti Svíþjóð í Halmstad í átta liða úrslitunum á Evrópumótinu í Svíþjóð en nú ætlar Freyr að gefa Katrínu tækifæri á að kveðja landsliðið með sigri.

Katrín Jónsdóttir mun væntanlega spila sinn 133. og síðasta landsleik á móti Sviss 26. september síðastliðinn.

„Hún er sigurvegari og væri ekki verra að kveðja hana með sigri," sagði Freyr á fundinum í dag og KSÍ er á svipuðum nótum í umfjöllun sinni um hópinn á heimasíðu sambandsins.

"Katrín Jónsdóttir er í hópnum og mun þarna kveðja íslenska áhorfendur eftir glæsilegan landsliðsferil sem telur nú 132 leiki með A landsliðinu.  Knattspyrnuáhugafólki gefst þarna kostur á að þakka henni fyrir hennar frábæra framlag til íslenskrar knattspyrnu," segir í fréttinni á ksi.is.

„Ef Kata byrjar inni á verður hún með bandið," sagði Freyr um fyrirliðabandið en hann ætlar ekki að velja framtíðarfyrirliða liðsins fyrr en fyrir Serbíuleikinn sem verður í október.


Tengdar fréttir

Þjálfarateymi Freys tilbúið - Elísabet er nýr njósnari liðsins

Freyr Alexandersson, nýráðinn þjálfari kvennalandsliðsins, er búinn að setja saman teymið sitt sem mun vera með honum í verkefnum kvennalandsliðsins. Heimir Hallgrímsson mun verða aðstoðarþjálfari hans í fyrsta leik og sú eina sem heldur "sæti" sínu frá þjálfarateymi Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar er liðstjórinn Margrét Ákadóttir.

Freyr vill hafa sína leikmenn fríska - bara ein æfing á dag

Freyr Alexandersson, nýráðinn þjálfari kvennalandsliðsins, tilkynnti í dag sinn fyrsta landsliðshóp en hann á blaðamannafundinum lagði hann mikla áherslu á það að stelpurnar muni ekki æfa oftar en einu sinni á dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×