Skoðun

Úrtölufólkið og spýjan

Sr. Örn Bárður Jónsson skrifar
Hvað ef landnámsmennirnir forðum daga hefuðu snúið við og sagt „Þetta er bara vesen. Hættum við að leita á vit nýrrar framtíðar"?

Hvað ef Leifur, Þorfinnur, Guðríður og co. hefðu hætt við förina til Ameríku og aldrei fundið hina nýju álfu?

Hvað ef bandamenn í seinni heimstyrjöldinni hefðu sagt „Við skulum ekkert vera að skipta okkur af þessum málum. Látum þetta bara eiga sig"?

Hvað ef Lúther hefði ekki þorað að negla greinarnar 95 á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg og við værum enn föst í viðjum þröngsýni og afturhalds?

Hvað ef við hefðum ekki þorað að færa út landhelgina í 12 mílur, 50 mílur, 200 mílur?

Hvað ef Vestmannaeyingar hefðu ekki nennt upp á land í gosinu? Hvað ef þeir hefðu hætt við að dæla köldum sjó á hraunið? Hvað ef Guðlaugur hefði snúið aftur til skipsflaksins í stað þess að synda í land?

Hvað ef við hefðum ekki þorað að taka á hruninu? Og svo framvegis og framvegis.

Eða erum við kannski í þeim sporum að þora ekki að taka á hruninu?

Nú hrópar úrtölufólk hátt á málþingum og í fjölmiðlum og vill snúa þjóðinni til baka, þjóðinni sem er á ferð á vit nýrrar framtíðar. Hættum við, segja þau, förum varlega, skoðum þetta betur, snúum við, hættum við ferðina til fyrirheitna landsins, höfum þetta bara eins og það hefur verið, spillt, rotið, gruggugt, óskýrt, óréttlátt, ósanngjarnt, ójafnt – ó, ó, ó!

Já, svei, segi ég nú bara.

Höldum för okkar áfram

Það tók fámennan hóp 116 daga að setja saman bandarísku stjórnarskrána árið 1787 sem margar stjórnarskrár frjálsra landa hafa síðan verið byggðar á. Hún var samþykkt með naumum meirihluta í mörgum ríkjum en náði þó í gegn. Það tók stjórnlagaráð 115 daga að ljúka gerð nýrrar stjórnarskrá fyrir Ísland árið 2011, stjórnarskrá sem fær flotta dóma þeirra erlendu sérfræðinga sem búa yfir alvöru þekkingu og kunna að lesa hana í samhengi við aðrar stjórnarskrár heimsins. En hér heima á klakanum eru úrtölumenn, einkum af félagsvísinda- og lögfræðisviðum háskólanna, orðnir hásir við að öskra á fólk um að snúa við, fara til baka. Mér koma til huga orð Salómons konungs, þess vitra manns: „Eins og hundur sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi sem endurtekur fíflsku sína."

Ætlum við að að vera þær gungur að snúa við? Ætlar þú, þjóð mín, að snúa aftur til spýjunnar?

Hlustum ekki á úrtölufólkið, brýnum alþingismenn okkar til að sýna nú djörfung og dug og klára málið án þess að eyðileggja listaverkið sem stjórnarskrárfrumvarpið er. Höldum för okkar áfram, ferðinni til nýrrar framtíðar, fegurri veraldar, réttlátara samfélags.




Skoðun

Sjá meira


×