Skoðun

Sex hundruð unglingar sem breyta heiminum

Um helgina verða unglingarnir 600 staddir á Egilsstöðum á vegum þjóðkirkjunnar. Þar ætla þau að safna fé til verkefna Hjálparstarfs kirkjunnar og leggja sitt af mörkum til að bæta heiminn. Féð sem safnast verður nýtt til þess að byggja brunna handa fólki í Malaví sem hefur engan aðgang að hreinu vatni. Hreint vatn er ekki sjálfsagður hluti af tilveru allra og þó er það ein af forsendum lífs á jörðu. Fjöldi fólks deyr á hverjum degi úr sjúkdómum sem tengjast óhreinu vatni. Vatnsskorturinn bitnar til dæmis á stúlkum sem eyða heilu dögunum í að sækja vatn fyrir fjölskylduna. Á meðan eru þær ekki í skóla og samfélagið allt líður fyrir.

Það er ekki auðvelt fyrir okkur sem erum búsett á Íslandi að setja okkur í þessi spor en unglingarnir okkar eru magnaðir og þau ætla nú til Egilsstaða og eyða þar helgi við skemmtun og lærdóm, vinnu og helgihald og þau ætla að leggja sitt af mörkum til þess að systkini okkar í Malaví eigi kost á betra lífi.

Landsmótið á Egilsstöðum er það næststærsta í sögu Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ). Á hverju ári leggja unglingarnir sitt af mörkum til góðra verkefna. Á undanförnum árum hafa þau safnað fé til að leysa þrælabörn frá Indlandi úr ánauð og til þess að hjálpa japönskum jafnöldrum sínum eftir jarðskjálfta þar í landi.

Landsmót gefur þeim einnig tilfinningu fyrir því að þau séu hluti af mun stærra samhengi en söfnuðinum heima á Vopnafirði, Digranesi, Hvammstanga, Grafarvogi. Þau finna sig sem hluta af lifandi þjóðkirkju sem starfar um allt land. Þau kynnast hvert öðru, læra hvert af öðru og stilla saman strengi til góðra verka.

Megi Guð gefa að mótið fari vel fram og okkur takist saman að breyta heiminum, vera hendur Guðs til góðra verka.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×