Skoðun

Illvilji

Brynjar Níelsson skrifar
Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, sem sá um framkvæmd þjóðfundarins, skrifaði grein í Fréttablaðið á föstudaginn síðastliðinn og sakar mig um ósannindi og illvilja í skrifum mínum um tillögur stjórnlagaráðs og framkvæmd þjóðfundarins. Í grein minni sagði ég orðrétt: „Á hverju borði voru leiðbeinendur á vegum stjórnvalda sem leiddu umræðurnar og auðvelt er að sjá af frumgögnum hvernig það hafði áhrif á umræðuna“. Ósannindin og illviljinn virðist hafa komið fram í þeim orðum mínum ef ég skil grein Guðrúnar rétt.

En hvar liggja ósannindin og illviljinn í þessari setningu? Þjóðfundurinn var á vegum stjórnvalda, sem skipuðu stjórnlaganefnd, sem aftur sá um framkvæmd þjóðfundarins. Á hverju borði var „lóðs“ og eins og allir vita leiðir lóðsinn. Við getum svo deilt um það hvort og hvernig það hafði áhrif á umræðuna á þjóðfundinum.

Ég efast ekki eitt augnablik um það að lóðsar og aðrir sem komu að framkvæmd þjóðfundarins hafi starfað að heilum hug, af einlægni og drenglyndi og reynt að gæta hlutleysis. Gagnrýni mín lýtur að fyrirkomulagi þjóðfundarins en ekki að óheiðarleika stjórnlaganefndar eða starfsmanna hennar. Það er hins vegar alltaf svo í hópavinnu að einhver er leiðandi og hefur áhrif á aðra. Um það ber þjóðfundarfulltrúum, sem ég hef rætt við, saman. Það er mín skoðun að þetta fyrirkomulag þjóðfundarins henti afar illa til að fá fram raunverulegan vilja þjóðarinnar.

Kosningaþátttaka þjóðarinnar í stjórnlagaþingskosningunum endurspeglar heldur ekki vilja þjóðfundarins til að kollvarpa stjórnarskránni eins og sumir vilja túlka niðurstöðu fundarins.

Guðrún Pétursdóttir virðist vera af þeirri tegund fólks sem telur að andstæðar skoðanir, við sínar eigin, megi rekja til illvilja og jafnvel mannvonsku. Slíkt fólk hefur verið meira áberandi eftir hrun bankanna en áður. Við Guðrún hljótum að geta deilt um það og hvort fyrirkomulag þjóðfundarins sé slæmt eða gott til að fá fram þjóðarvilja án þess að saka hvort annað um illvilja.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×