Skoðun

Meira um aðferðir við forsetakjör

Þorkell Helgason skrifar
Í Fréttablaðinu 25. júlí sl. er ágæt frásögn af góðu framtaki nokkurra fræðimanna sem spurðu í netkönnun hvaða aðferð fólki hugnaðist best við kjör í embætti forseta Íslands. Spurt var um fjórar aðferðir auk þeirrar núverandi þar sem einfaldur meirihluti ræður. Meðal annars var boðið upp á það sem fræðimennirnir kölluðu „varaatkvæðisaðferð“. Við þetta má bæta fróðleik sem hvorki kom fram hjá spyrlunum né heldur í fréttaskýringunni.

Fyrst er þess að geta að nafngiftin á því sem nefnt er „varaatkvæðisaðferð“ hefur verið á reiki. Hún hefur í opinberum skjölum verið kennd við „forgangsröðun“ en líka nefnd „aðferð færanlegra atkvæða“, sem er hrá þýðing á algengasta heitinu á ensku, Single transferable vote (STV).

Mikilvægt er að vita að þessi aðferð er sú sama og stjórnlagaráð hefur lagt til að beitt verði við forsetakjör framvegis. Til upprifjunar þá felst aðferðin í því að kjósendur eiga ekki að velja með krossi einum heldur að raða frambjóðendum í forgangsröð: „Þennan vil ég helst, en ef hann nær ekki kjöri þá er þessi næstbesti kostur minn“ o.s.frv. Þetta er einföld aðferð og hefur ýmsa kosti fram yfir þá að kjósa tvisvar. Kostnaður er minni bæði hjá hinu opinbera og ekki síður hjá frambjóðendunum sjálfum. En ekki er síðra að STV, sem er eins og „tveggja umferða kosning“ í einni, kemur í veg fyrir hrossakaup um stuðning þeirra sem falla út í fyrri umferðinni, eins og er t.d. sláandi í Frakklandi.

Að lokum má bæta við frásögn blaðsins að bæði var STV-aðferðin, „varaatkvæðisaðferðin“, notuð við kosninguna til stjórnlagaþings og jafnframt lögð til grundvallar í nýlegum stjórnarfrumvörpum um persónukjör, en dagaði uppi í málþófi eins og nú er tískan á Alþingi.

Meira má lesa um STV-aðferðina við forsetakjör í Fréttablaðinu 12. janúar sl.; sjá http://thorkellhelgason.is/?p=1324.




Skoðun

Sjá meira


×