Skoðun

Notendamiðað velferðarkerfi

Tryggvi Gíslason skrifar
Heilbrigðisþjónusta frá vöggu til grafar er einn af grunnsteinum samfélagsins. Alþingi hefur látið undir höfuð leggjast að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum við breyttar aðstæður: breytingar á búsetu, breytta atvinnuhætti, breytt mataræði – og andspænis þeirri dýru en dýrmætu staðreynd að fólk lifir lengur. Nýir sjúkdómar hafa komið fram vegna breyttra samskipta og breyttra viðhorfa og breyttra lifnaðarhátta. Mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum er því knýjandi nauðsyn þar sem tillit er tekið til breyttra þarfa og breyttra viðhorfa undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi.

Hollvinasamtök líkardeilda undirbúa því ráðstefnu í Reykjavík 24. september um mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi. Með því er átt við kerfi mótað í samráði við sjúka og aldraðra og aðstandendur þeirra á ábyrgð alþingismanna en ekki mótað af forstöðumönnum spítala og starfsfólki Heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins. Gerð er krafa um að Alþingi móti heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar með tilliti til þarfa notenda á grundvelli samráðs við sjúka og aldraða og aðstandendur þeirra.

Fyrirmynd notendamiðaðrar heilbrigðisþjónustu er áætlun Norðmanna sem nefnd er Samhandlingsreformen og byggð er á lögum frá 2011. Er áætlunin í samræmi við nýja stefnu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Samhandlingsreformen tók gildi í upphafi þessa árs og er ætlað að taka tillit til þarfa sjúklinga á öllum stigum. Lögð er áhersla á forvarnir fremur en „lagfæringar“, hjálp strax en ekki þegar allt er komið í eindaga, aukið samstarf stofnana innan heilbrigðiskerfisins, þjónustu nær fólkinu, samstarf sérhæfðrar þjónustu, fleiri verkefni til sveitarfélaga. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á bætta þjónustu við sjúklinga með því að auka áhrif sjúklinganna sjálfra og aðstandenda þeirra: „bedre for pasientene - sterkere brukermedvirkning“, eins og þetta heitir á norsku.

Til ráðstefnunnar er boðið fulltrúum samtaka aðstandenda sjúkra og aldraðra, frjálsum samtökum um heilbrigðis- og velferðarmál, stéttarfélögum lækna og hjúkrunarfólks, fulltrúum sjúkrastofnana, heilsugæslustöðva og sveitarfélaga svo og alþingismönnum og ráðherrum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×