Íslenski boltinn

Lagerbäck: Betra að Gylfi og Alfreð hvíli núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Mynd/Vilhelm
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, verður ekki með sitt sterkasta lið á móti Andorra þegar þjóðirnar mætast í vináttulandsleik í Andorra á morgun.

Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson og Ragnar Sigurðsson hafa dregið sig úr landsliðshópnum og Lars hefur kallað á Jón Daða Böðvarsson og Garðar Jóhannsson í þeirra stað.

Lars Lagerbäck, þjálfari liðsins, og Gauti Laxdal læknir voru spurðir út í mikilvægi leiksins og meiðsli leikmanna í viðtali á heimasíðu sambandsins.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið af heimsíðu KSÍ:

Lars, af hverju er þessi leikur mikilvægur?

„Hver einasti landsleikur er mikilvægur, hvort sem það er mótsleikur eða vináttuleikur. Hver einasti dagur sem við erum saman við æfingar og aðra vinnu gefur okkur svo mikið. Það er hægt að fara yfir almenna hluti og kafa ofan í smáatriðin, skoða ákveðin mál ítarlega í þjálfun og taktík. Svo er auðvitað það mikilvægasta í þessu öllu að skapa hugarfar sigurvegarans, reyna að vinna alla leiki, líka vináttuleikina. Hver einasti sigur færir okkur stig á styrkleikalista FIFA, og við þurfum að reyna að fá sem flest stig þar til að ná góðri stöðu áður en dregið verður í riðla fyrir næstu undankeppni EM."

Nú hafa orðið breytingar á leikmannahópnum sem var valinn upprunalega, sérstaklega í röðum sóknarmanna. Þetta hlýtur að trufla undirbúning þjálfarateymisins.

„Já, mikið rétt, þetta truflar, við viljum auðvitað helst að þeim leikmenn sem eru valdir í upprunalegan hóp komist í verkefnið, en ef það kemur eitthvað upp á og menn komast ekki, þá gerum við bara breytingar og nýir menn fá tækifæri. Það verður til dæmis gott að fá að sjá Jón Daða, sem er mjög efnilegur leikmaður og einn af bestu leikmönnum í Pepsi-deildinni í sumar, afar spennandi. Það eru tækifæri í öllum aðstæðum, ekkert er svo slæmt að það færi okkur ekkert gott. Auðvitað er slæmt að meiddu leikmennirnir séu ekki hér, því það er mikilvægt að allir sem eru valdir mæti í alla leiki. Við viljum skapa sigurlið, með því að vinna líka vináttuleikina."

Ragnar Sigurðsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Alfreð Finnbogason heltust allir úr lestinni. Gauti Laxdal er læknir liðsins og aðspurður um meiðslin hafi hann þetta að segja:

„Ragnar er einfaldlega veikur, er með hita og var ekki með sínu liði á sunnudag, þannig að hann getur ekki verið með okkur í þessum leik. Varðandi Alfreð og Gylfa, þá hef ég rætt við læknateymin hjá þeirra félagsliðum og einnig við leikmennina sjálfa. Það er betra fyrir þá að hvílast, því þeir hafa átt við meiðsli að stríða í nokkurn tíma núna og í tilfelli Alfreðs þá versnaði það eftir leikinn í gær. Gylfi hefur fundið fyrir sínum meiðslum áður, í nokkurn tíma, og er ekki alveg heill. Hann hefði getað spilað, en eftir að hafa tætt við læknateymi Tottenham ákváðum við í sameiningu að það væri best fyrir hann og skynsamlegast að vera um kyrrt í London og fá meðferð þar."

Við þetta bætti svo Lars:

„Það er auðvitað leitt að þetta hafi komið upp, en til lengri tíma litið er betra að leikmenn eins og Gylfi og Alfreð hvíli núna, fái meðferð og nái sér að fullu. Það er betra fyrir íslenska landsliðið til lengri tíma litið. Samt er gott að geta þá gefið öðrum leikmönnum tækifæri, eins og Jóni Daða sem ég nefndi áður, það eru líka tækifæri í þessum vináttuleik, sem er mikilvægur eins og allir leikir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×