Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Íslensku stelpurnar voru mun betri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurður Ragnar Eyjólfsson Mynd/Nordic Photos/Getty
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, kvennalandsliðsþjálfari, var ánægður með leik liðsins í dag en íslensku stelpurnar unnu þá 1-0 sigur á Kína og tryggðu sér leik um fimmta sætið á mótinu. Sigurður Ragnar sagði það hafa aðeins verið tímaspursmál hvenær sigurmarkið kæmi en varamaðurinn Fanndís Friðriksdóttir skoraði það ellefu mínútum fyrir leikslok.

„Þetta var sigur liðsheildarinnar. Stelpurnar héldu áfram allan tímann, voru búnar að skora mark sem var dæmt af og áttu líka skot í slána. Þetta var tímaspursmál hvenær markið kæmi því þær voru mun betri í leiknum og gáfu engin færi á sér. Liðið spilaði vel varnarlega og það var góð barátta í liðinu út um allan völl," sagði Sigurður Ragnar.

„Okkur fannst við vera betri og við ræddum það í hálfleik að það kæmi að því að við myndum skora. Við sóttum sigurinn og það verður mjög fínt að mæta Dönum aftur. Við náðum að vinna þær í fyrsta sinn í fyrra og það verður góð áskorun fyrir okkur að reyna að vinna þær," sagði Sigruður Ragnar.

„Við viljum fá sem mest af leikjum á móti sterkum liðum því þangað erum við að stefna. Það var markmiðið hjá okkur að fá leik um sæti við sterkt lið. Við vissum að við þurftum að vinna þennan leik því Kína myndi duga jafntefli," sagði Sigurður Ragnar.

„Það eru sætustu sigrarnir að vinna 1-0 í lokin eftir að hafa unnið rosalega vel allan leikinn. Þær spiluðu mjög vel. Við vorum að prófa 4-4-2 og ég var ánægður með að það gekk svona vel," sagði Sigurður Ragnar og framundan er leikur um fimmta sætið á móti Dönum á miðvikudaginn.

„Ég er mjög ánægður með að við mætum Danmörku. Það er hörkugott lið og verður gott próf fyrir okkur," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×