Skoðun

Vissir þú?

Vissir þú að yfir 600 milljónir kvenna og stúlkna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert? Vissir þú að ólögleg sala með fólk er þriðja umfangsmesta glæpastarfssemi í heimi? Vissir þú að ofbeldi dregur jafnmargar konur til dauða og krabbamein ár hvert? Vissir þú að í mörgum löndum kemst nauðgari hjá refsingu með því að giftast fórnarlambi sínu?

Já, það er víða pottur brotinn í réttindamálum kvenna. Sá heimur sem mörgum stúlkubörnum er gert að alast upp í tekur þeim ekki fagnandi. Sameinuðu þjóðirnar hafa einsett sér að breyta þessu. Nýverið var sett á laggirnar stofnun sem hefur þetta verkefni með höndum. Hún nefnist UN Women. Hún byggir að sönnu á hinu góða starfi sem UNIFEM og aðrar þær stofnanir sem runnu saman í UN Women hafa unnið um árabil. Það starf felst í því að vinna með stjórnvöldum og frjálsum félagasamtökum að því að efla og bæta réttindi kvenna.

Á Íslandi er rekin landsnefnd UN Women. Það eru ekki margir sem vita það, en landsnefndin á Íslandi er ein öflugasta landsnefnd UN Women í heimi, en UN Women er að vísu ein alminnsta stofnun Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur til vegna þess að Íslendingar hafa verið örlátir í því að leggja þessu málefni lið og megum við ekki láta deigan sína í þeim efnum.

UN Women á Íslandi stendur fyrir svokallaðri Fiðrildaviku 12.–18. september með það að markmiði að hvetja Íslendinga til að standa með „systrum“ sínum víða um heim. Þema fjáröflunarvikunnar er fiðrildið; fiðrildið táknar umbreytingu til hins betra, frelsi og von og ætlunin er að hafa svokölluð fiðrildaáhrif héðan frá Íslandi, en stundum er sú myndlíking notuð að vængjasláttur fiðrilda geti komið af stað fellibyl í fjarlægu landi. Framlög þau sem innt eru af hendi til landsnefndar UN Women á Íslandi eru nýtt í verkefni víða um heim þar sem unnið er að því að bæta hag kvenna í fátækustu löndum heims.

Taktu þátt í gera heiminn betri fyrir allar dætur jarðarinnar – gakktu í lið með UN Women!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×