Skoðun

Upp­nám í skóla- og frístundastarfi

Kjartan Magnússon skrifar

Borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur mistekist að standa með farsælum hætti að hagræðingu í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Ríkir uppnám í mörgum skólum og frístundaheimilum vegna óvandaðra tillagna meirihlutans um samrekstur og sameiningu þessara stofnana. Þessi vinnubrögð koma fram með flausturslegum vinnubrögðum, miklum flýti og ónógu samráði við hagsmunaaðila.



Fyrir liggur fjöldi umsagna frá skólum, foreldrum, skólastjórnendum, starfsmönnum og fleiri aðilum vegna þessara tillagna. Í 90% tilvika er eindregin afstaða tekin gegn vinnubrögðum meirihlutans auk þess sem 12 þúsund foreldrar hafa mótmælt þessum áformum með undirskriftasöfnun.



Ljóst er að margvísleg tækifæri liggja í auknu samstarfi og/eða samrekstri skóla og frístundaheimila en mikilvægt er að vandað sé til þeirrar vinnu og tryggt að ekki sé slakað á faglegum kröfum. Áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um breytingar á fyrirkomulagi skóla- og frístundastarfs yngstu barnanna, er nauðsynlegt að fram fari samráð og stefnumótunarvinna með aðkomu allra hagsmunaaðila.

Vanhugsaðar tillögurSama dag og menntaráð og íþrótta- og tómstundaráð skiluðu umsögnum sínum vegna umræddra tillagna í síðustu viku, var meirihlutinn tilbúinn með nýjar breytingartillögur á yfirstjórn menntasviðs, leikskólasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs. Meirihlutinn kaus að leyna tillögunum fyrir þessum ráðum og taldi enga ástæðu til að fá þær í lýðræðislega umræðu. Tillögurnar voru síðan fluttar fyrirvaralaust í borgarráði daginn eftir (fimmtudag) og aukafundur boðaður í borgarráði á mánudagsmorgni svo hægt væri að samþykkja þær á methraða. Það er í takt við annað að stjórnkerfisnefnd borgarinnar, sem á að fjalla um allar slíkar breytingar, hefur ekki fundað í tvo mánuði.



Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur með illa unnum og vanhugsuðum tillögum valdið uppnámi í skóla- og frístundastarfi í borginni. Það er ótækt að meirihlutinn beiti svo óvönduðum vinnubrögðum í þessum mikilvæga málaflokki, sem snýr beint að þjónustu við börn og ungmenni.




Skoðun

Sjá meira


×