Skoðun

Vaðlaheiðarvegavinna

Mörður Árnason skrifar

Það er ekkert skrýtið að gera góðlátlegt grín þegar þingmaður spyr ráðherra um það á Alþingi hvað gerist eftir mörg ár í Vaðlaheiðargöngum þegar eftir mörg ár verður ófært um Víkurskarð – og grínið um þessa fyrirspurn mína hér í blaðinu í gær var hreint ágætt.

Samt er spurningin góð.



Miklar efasemdir eru uppi um að Vaðlaheiðargöngin standi undir sér, og margir – fremst í flokki FÍB – halda að þegar til stykkisins kemur verði sótt í almannasjóði það sem út af stendur í þessu reikningsdæmi. Svo sem í ljósi fréttanna af fjárhagslegri niðurstöðu Héðinsfjarðarframkvæmda.



Forsvarsmenn gangagerðarinnar vísa þessu á bug. Þetta sé einkaframkvæmd á viðskiptaforsendum. Engin einokun af því fólk getur alltaf farið hina leiðina – um Víkurskarð – en viðskiptavinirnir sjái til þess að göngin standi undir sér: Ef umferð samkvæmt áætlun dugir ekki – þá bara rukkum við bara einn áratug í viðbót.

Grundvöllur þessarar röksemdafærslu er sá að um raunverulegt einkamál sé að ræða – að ökumenn hafi sífellt val um að borga göngin eða fara skarðið ókeypis (les: fyrir venjulegt skattfé) – nema þá þennan hálfa annan dag á vetri sem nú er að jafnaði ófært um Víkurskarð.



Það er Vegagerðin sem sér um að halda opnum erfiðum vegum, og tekur hverju sinni ákvörðun um þær framkvæmdir, meðal annars um mokstur í Víkurskarði. Það er líka Vegagerðin sem fyrir hönd ríkisins er ráðandi hluthafi í Vaðlaheiðargöngum hf. Vegagerðin verður þess vegna fyrir hönd ríkisins í þeirri sérkennilegu  stöðu í vondum veðrum að taka ákvörðun um að borga mokstur til að standa í samkeppni við sjálfa sig.

Þess vegna er spurt.

 




Skoðun

Sjá meira


×