Fótbolti

Stelpurnar okkar vinsælar - margar þjóðir vilja fá vináttulandsleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir í baráttu við bandaríska stelpu í leiknum í dag.
Katrín Jónsdóttir í baráttu við bandaríska stelpu í leiknum í dag. Mynd/AP
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins sem náði frábærum árangri í Algarve-bikarnum, segir að frammistaða liðsins á mótinu hafi vakið mikla athygli með hinna þjóðanna en flestar sterkustu knattspyrnuþjóðir heims taka þátt í mótinu. Ísland náði silfurverðlaunum og veitt besta liði heims harða keppni í úrslitaleiknum.

„Það var frábært afrek hjá þeim að komast í úrslitaleikinn því þetta er gríðarlega sterkt mót. Það voru margir landsliðsþjálfarar í hinum liðunum sem komu til mín eftir leikinn og óskuðu okkur til hamingju með frábæran árangur í mótinu," segir Sigurður Ragnar.

„Það er óvíst hverjir næstu landsleikir verða. Ég og Klara (Bjartmarz) erum að fara til Sviss því það verður dregið í undankeppni EM 14. mars. Þá vitum við hverjir eru með okkur í riðli," segir Sigurður Ragnar en það er nóg af möguleikum í stöðunni þótt að það sé ekki búið að festa neinn landsleik.

„Það eru einhver lið búin að tala við okkur um vináttuleiki sem við ætlum að setjast yfir og skoða. Við ætlum að reyna að undirbúa liðið enn betur fyrir undankeppni EM sem byrjar í haust. Vonandi náum við einhverjum vináttuleikjum í sumar," segir Sigurður Ragnar og tvö boð komu út á velli þegar verðlaunaafhendingin fór fram í dag.

„Það voru strax tvær þjóðir sem ræddu við okkur út á velli eftir úrslitaleikinn. Við þurfum að skoða það betur því það eru nokkrir eftirsóknarverðir möguleikar fyrir okkur í sambandi við vináttuleiki sem við ætlum að skoða betur," sagði Sigurður Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×