Viðskipti innlent

Allt undir við skoðun á sparisjóðunum

Brjánn Jónasson skrifar
Byr sparisjóður Líklegt er að fimm prósenta hlutur ríkisins í Byr sparisjóði renni inn í Bankasýslu ríkisins fyrir áramót.
Fréttablaðið/Pjetur
Byr sparisjóður Líklegt er að fimm prósenta hlutur ríkisins í Byr sparisjóði renni inn í Bankasýslu ríkisins fyrir áramót. Fréttablaðið/Pjetur

Sparisjóðirnir í landinu reka um þriðjung útibúa bankastofnana í landinu þrátt fyrir að hlutdeild þeirra í útlánum og eignarleigusamningum fjármálakerfisins sé aðeins um fjögur prósent.

Fjöldi útibúa fylgir viðskiptamódeli sparisjóðanna, en einn styrkleika þeirra hefur verið nándin við viðskiptavinina, segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins.

Hún segir eðlilegt að sparisjóðirnir séu með fleiri útibú en aðrar fjármálastofnanir, en þrátt fyrir sérstöðu þeirra þurfi að skoða allar leiðir til að hagræða í rekstri sparisjóðakerfisins. Þar verði allt að vera undir, þar með talið fjöldi útibúa.

„Það er afar mikilvægt að láta ekki staðar numið þegar fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðanna er lokið. Það verður að halda áfram og klára þá rekstrarlegu endurskipulagningu sem hlýtur að fylgja í kjölfarið,“ segir Elín.

Hún segir það mikilvægt í ljósi þess hversu miklar breytingar hafa orðið á stærð sparisjóðakerfisins, og ekki síður þeirra aðstæðna sem fjármálafyrirtæki búi við á Íslandi í dag.

„Viðskiptamódel sparisjóðanna gengur út á að þjónusta almenna viðskiptavini. Sparisjóðirnir hafa byggt tilveru sína á nálægð við viðskiptavinina, þeir þekkja viðskiptavinina vel og viðskiptavinirnir þá. Það er styrkleiki sparisjóðanna,“ segir Elín.

„Auðvitað verður að gæta að því að þessi styrkleiki tapist ekki,“ segir Elín. Hún segir að skoðaðir verði allir möguleikar til að bæta rekstrarafkomu sparisjóðanna. Hluti af því verði án efa að skoða hvort þörf sé fyrir öll þau útibú sem sparisjóðirnir starfræki í dag.

Í ræðu á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða í síðustu viku sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri mikilvægt að sparisjóðirnir takmörkuðu starfsemi sína við þá þætti þar sem þeir væru samkeppnisfærir, og færu ekki út í áhættusama fjárfestingar­bankastarfsemi.

Elín segir æskilegt að hlúa að fjölbreytileika í fjármálakerfinu, og þar séu sparisjóðirnir mikilvægir.

„Það er alveg ljóst að það hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar á stærð sparisjóðakerfisins frá árinu 2001 til ársins í ár. Fyrst varð gríðarleg stækkun, en síðan hefur kerfið minnkað mikið, niður fyrir þá stærð sem það var í árið 2001,“ segir Elín.

Bankasýsla ríkisins er eignarhaldsfélag í eigu ríkisins. Félagið fer með eignarhlut ríkisins í fjármálastofnunum. Bankasýslan hefur undanfarið aflað upplýsinga um stöðu sparisjóðakerfisins og mótað mögulegar leiðir sem hægt væri að fara til að endurskipuleggja rekstur.

Bankasýslan fer nú með 81,33 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum, 13 prósenta hlut í Arion og 5 prósenta hlut í Íslandsbanka. Þá er 49,5 prósenta hlutur í Sparisjóði Norðfjarðar undir stjórn Bankasýslunnar.

Elín reiknar með að eignarhald á fjórum sparisjóðum til viðbótar muni renna inn í Bankasýsluna á næstu dögum. Um er að ræða eignarhluti í Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Þórshafnar.

Þá segir Elín viðbúið að Sparisjóður Keflavíkur renni inn í Bankasýsluna fyrir áramót, sem og fimm prósenta hlutur ríkisins í Byr sparisjóði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×