Fótbolti

Malmö meistari í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson spilaði að venju með Gautaborg.
Ragnar Sigurðsson spilaði að venju með Gautaborg. Nordic Photos / AFP

Malmö varð í dag sænskur meistari í knattspyrnu en lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag.

Malmö dugði sigur í leik sínum gegn Mjällby og vann liðið leikinn, 2-0, en bæði mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleik.

Helsingborg var með jafn mörg stig og Malmö fyrir leiki dagsins en miklu verri markatölu. Liðið gerði markalaust jafntefli við Kalmar en hefði þurft að vinna þrettán marka sigur til að komast upp fyrir Malmö.

Nokkrir Íslendingar voru í eldlínunni með sínum liðum í dag.

Hallgrímur Jónasson spilaði allan leikinn fyrir GAIS sem tapaði fyrir Elfsborg, 1-0. Eyjólfur Héðinsson kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik.

Ragnar Sigurðsson og Hjálmar Jónsson spiluðu báðir allan leikinn fyrir IFK Gautaborg sem gerði 2-2 jafntefli við Gefle. Theodór Elmar Bjarnason var á bekknum hjá IFK.

Helgi Valur Daníelsson spilaði allan leikinn fyrir AIK sem gerði 1-1 jafntefli við Åtvidaberg á útivelli.

Jónas Guðni Sævarsson var ekki í hópnum hjá Halmstad sem vann 2-0 sigur á Djurgården.

IFK varð í sjöunda sæti deildarinnar með 40 stig, AIK í ellefta með 35 stig, Halmstad í tólfta með 35 stig og GAIS í þrettánda sæti með 32 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×