Körfubolti

Helena ekki bara deildarmeistari heldur líka leikmaður ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir og þjálfari hennar Jeff Mittie.
Helena Sverrisdóttir og þjálfari hennar Jeff Mittie. Mynd/Heimasíða TCU
Helena Sverrisdóttir var í nótt valinn besti leikmaður Mountain West deildarinnar í bandaríska háskólakörfuboltanum og komst auk þess í lið ársins annað árið í röð. Einn liðsfélagi hennar í TCU var einnig í liði ársins og þjálfari hennar, Jeff Mittie, var kosinn þjálfari ársins.

Helena er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu TCU sem er kosinn leikmaður ársins en hún leiddi skólann sinn til síns fyrsta deildarmeistaratitils í Mountain West deildinni.

Helena átti frábært tímabil sem leiðtogi besta liðs deildarinnar en hún var eini leikmaðurinn í Mountain West deildinni sem komst inn á topp fimmtán í fjórum tölfræðiþáttum. Helena var númer tvö í stoðsendingum (5,3 í leik), númer þrjú í stolnum boltum (2,3), númer sex í fráköstum (6,6) ogt númer níu í stigaskorun (13,6)

Emily Carter, liðsfélagi Helenu og stigahæsti leikmaður liðsins (14,8 stig í leik) var einnig í liði ársins.

TCU hefur leik í úrslitakeppni Mountain West deildarinnar á föstudaginn en liðið kemur ekki inn fyrr en í undanúrslitunum þökk sé góðum árangri liðsins í deildinni í vetur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×