Körfubolti

Tyrkir mæta Bandaríkjamönnum í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kerem Tunceri númer 10) skoraði stórar körfur fyrir Tyrki í kvöld.
Kerem Tunceri númer 10) skoraði stórar körfur fyrir Tyrki í kvöld. Mynd/AP
Tyrkir komust í úrslitaleikinn á HM í fyrsta sinn í sögunni eftir æsispennandi og dramatískan undanúrslitaleik við Serba í kvöld á HM í körfubolta í Tyrklandi. Tyrkir skoruðu sigurkörfuna hálfri sekúndu fyrir leiklok og unnu 83-82.

Serbar voru með forustuna nær allan leikinn en Tyrkir gáfust ekki upp og tryggðu sér ótrúlegan karaktersigur í blálokin.

Serbar voru með sjö stiga forskot í hálfleik, 42-35 en Tyrkir byrjuðu seinni hálfleikinn að krafti og náðu strax að jafna leikinn í 46-46. Því svöruðu Serbar hinvegar með átta stigum í röð og tóku frumkvæðið aftur í leiknum.

Tyrkir náðu aftur að minnka muninn í þrjú stig, 63-60, fyrir lokaleikhlutann en Serbar virtust ætla að svara hverju áhlaupi heimamanna á fætur öðru. Heimamenn gáfust hinsvegar ekki upp dyggilega studdir af troðfullri höll í Istanbul. Það var loksins Kerem Tunceri sem kom Tyrkjum yfir í 76-75 þegar 3 mínútur og 25 sekúndur voru eftir.

Novica Velickovic kom Serbum í 82-81 þegar 4,3 sekúndur voru eftir af leiknum en Tyrkir áttu síðustu sóknina í leiknum. Lokasókn Tyrkja virtist vera að leysast upp þegar umræddur Kerem Tunceri fékk boltann óvænt og fór upp að körfu og skoraði sigurkörfuna þegar hálf sekúnda var eftir af leiknum.

Hidayet Türkoglu skoraði 16 stig fyrir Tyrki, Ömer Onan var með 14 stig og þeir Kerem Tunceri og Ender Arslan voru báðir með tólf stig.

Milos Teodosic átti flottan leik fyrir Serba með 13 stig og 11 stoðsendingar en Marko Keselj var stigahæstur með 18 stig.

Bandaríkin og Tyrkland hafa unnið alla sína leiki á mótinu og mætast í úrslitaleiknum á morgun á undan spila Serbar og Litháar um 3. sætið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×