Ísland og Kýpur gerðu markalaust jafntefli í í vináttulandsleik á Kýpur í dag en þjóðirnar mætast eins og kunnugt er í undankeppni Evrópumótsins sem hefst næsta haust.
Íslenska liðið átti fínan endakafla í leiknum og meðal annars þrjú sláarskot á síðustu 22 mínútum leiksins.
Fyrri hálfleikur var daufur og tíðindalítill en það voru helst heimamenn í Kýpur sem komust nokkrum sinnum nálægt því að skapa hættu. Íslenska liðið fór nokkrum sinnum illa með lofandi sóknir og skapaði ekki neitt en helsta hættan kom eftir löng innköst Arons Einars Gunnarssonar.
Íslenska liðið vildi fá tvær vítaspyrnur í fyrri hálfleik en búlgarski dómarinn var á öðru máli.
Gunnleifur Gunnleifsson bjargaði frábærlega á 62. mínútu þegar hann varði vel þrumuskot eftir aukaspyrnu og í kjölfarið kviknaði á sóknarleik íslenska liðsins sem hafði verið lítilfjörlegur fram að því.
Heiðar Helguson fékk gott færi á 67. mínútu og aðeins mínútu síðar átti Rúrik Gíslason langskot sem kýpverski markvörðurinn varði í slánna og yfir.
Emil Hallfreðsson átti sláarskot úr aukaspyrnu á 74. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar átti Rúrik frábært langskot í slánna og niður og að því virtist inn fyrir marklínuna en búlgarski aðstoðardómarinn dæmdi þó ekki mark.
Það var ekki hægt að sjá annað á endursýningunni en að allur boltinn hefði farið inn fyrir marklínuna.