Viðskipti innlent

Hætta af erlendum lánum var vanmetin

Rannsóknarnefndin segir ljóst er að hvatinn fyrir því að lána í erlendum myntum hafi meðal annars verið sá að auka við erlendar eignir bankanna, þar sem skuldir þeirra, það er fjármögnun, hafi fyrst og fremst verið í erlendum myntum.
Rannsóknarnefndin segir ljóst er að hvatinn fyrir því að lána í erlendum myntum hafi meðal annars verið sá að auka við erlendar eignir bankanna, þar sem skuldir þeirra, það er fjármögnun, hafi fyrst og fremst verið í erlendum myntum.
Bankarnir tóku ekki að fullu tillit til gjaldreyrisáhættu vegna lána í erlendum myntum, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.

„Bankarnir tóku hærra hlutfall veða en umfram það var ekki litið nægjanlega til þess í hvaða mynt tekjuflæði viðkomandi lántaka var. Þá var lánað í miklum mæli í erlendum myntum fyrir innlendum markaðsverðbréfum, sem augljóslega voru með íslenskt tekjuflæði og verðáhættu í krónum," segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Bent er á að vegna samfylgni innlends verðbréfamarkaðar og krónunnar hafi þetta reynst „sérstaklega áhættusöm" útlán. „Ekki verður séð að áhættan af þessum lánum hafi verið rétt metin. Það hafði aftur þær afleiðingar að þau voru ekki rétt verðlögð sem loks leiddi til þess að einstaklingar og fyrirtæki tóku þessi lán í of miklum mæli. Tap íslenska hagkerfisins af þessu er gífurlegt."

Rannsóknarnefndin segir ljóst er að hvatinn fyrir því að lána í erlendum myntum hafi meðal annars verið sá að auka við erlendar eignir bankanna, þar sem skuldir þeirra, það er fjármögnun, hafi fyrst og fremst verið í erlendum myntum. Um leið bendir nefndin á að hafi viðskiptavinir bankanna ekki greiðslugetu, sem sveiflast með erlendu myntinni, þá megi færa rök fyrir því að lánin hafi ekki verið raunveruleg eign í erlendri mynt fyrir bankann.

„Gengisáhættan sem bankinn hefði tekið með því að lána í krónum hvarf ekki við það að lána íslensku viðskiptavinunum í erlendri mynt. Áhættan breyttist einvörðungu úr gengisáhættu í skuldaraáhættu," segir í skýrslu nefndarinnar og til viðbótar bent á að útlánaáhættan hafi verið mjög samþjöppuð „þar sem gæði þessa hluta lánasafnsins voru svo háð einni breytu, það er gengi íslensku krónunnar". Aukinheldur hafi þessi uppbygging erlendra lána í framhaldinu aukið á hagstjórnarvanda stjórnvalda.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×