Erlent

Helstirnið í nærmynd

Óli Tynes skrifar
May the force be with you.
May the force be with you. Mynd/NASA

Cassini geimfarið tók þessa mynd af Mimas tungli Satúrnusar úr aðeins 9.500 kílómetra fjarlægð. Það er það næsta sem geimfar hefur farið tunglinu.

Risagígurinn hægra megin á tunglinu er Herschel gígurinn. Hann heitir eftir stjörnufræðingnum William Herschel sem fann Mimas fyrstur manna árið 1789.

Margir geimáhugamenn kalla Mimas Helstirnið, þar sem gígurinn þykir gera tunglið líkt því ferlega ferlíki úr Starwars.

Gígurinn er 139 kílómetrar í þvermál. Hann er svo stór miðað við umfang tunglsins (næstum 1/3) að það er mesta furða að það skyldi ekki splundrast þegar loftsteinninn lenti á því einhverntíma í fyrndinni.

Veggir gígsins eru um fimm kílómetrar að hæð og það eru tíu kílómetrar niður á botninn þar sem hann er dýpstur.

Strýtan í miðjunni er sex kílómetra há.

Ef gígur í sama hlutfalli væri á jörðinni væri hann yfir 4000 kílómetrar að ummáli og breiðari en Kanada.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×