Knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson hjá Englandsmeisturum Manchester United hefur staðfest að hinn gamalreyndi Ryan Giggs verði hugsanlega klár fyrir seinni leikinn gegn AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Old Trafford 10. mars.
Giggs handleggsbrotnaði í leik gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni og átti að verða frá í að minnsta kosti mánuð en Ferguson er vongóður um að geta notið krafta Giggs í leiknum mikilvæga.
„Ryan er enn að berjast við þessi meiðsli en hann mun vonandi að losna við stálplötu úr hendinni fyrir helgi og þá getur hann fljótlega farið að æfa aftur á fullu. Það eru vissulega frábær tíðindi fyrir okkur og hann verður því hugsanlega klár í slaginn gegn AC Milan," sagði Ferguson á blaðamannafundi í dag.