Skoðun

Hættur á ferðamannastöðum

Sérstaða Íslands sem ferðamannalands er meðal annars fólgin í því frelsi og óhefta aðgengi sem fólk finnur fyrir þegar það heimsækir landið. Í tilefni slyssins við Látrabjarg á dögunum vil ég lengstra orða biðja þar til bær yfirvöld að hugsa sinn gang áður en farið er að setja upp rammgerðar girðingar og tálmanir hvar sem hætta getur leynst við vinsæla ferðamannastaði.

Flestum mönnum er gefinn ákveðinn skammtur af skynsemi sem fleytir þeim tiltölulega óhappalítið í gegnum lífið. Hjá öðrum yfirgnæfir áhættusæknin, svo engar girðingar fá þeim hvort eð er haldið. Það er þessi heilbrigða skynsemi sem við megum hvorki vanmeta né vanvirða hjá mannskepnunni. Þannig eru meira að segja þýsk umferðaryfirvöld nú á síðustu tímum búin að uppgötva þennan sannleika og farin að grisja í skógi umferðarmerkinga í sínu heimalandi. Hafa til dæmis fjarlægt fjölda merkinga sem sýna bíl steypast fram af kanti eða kaja þar sem ekið er um bryggjur eða á bökkum áa. Sama á við um umferðarmerki sem sýna möguleika á snjókomu. Farið er að treysta á að fólk verði sjálft vart við snjókomuna og þurfi því ekki á sérstökum aðvörunum að halda!

Hér á landi ættum við ekki að fara að tapa trú okkar á heilbrigða, mannlega skynsemi. Láta ekki skiltaskóga og keðjubunka yfirgnæfa íslenskar náttúruperlur. Að því leyti er t.d. nóg gert varðandi Gullfoss og Geysi, þótt frágangur í umhverfi og aðgengi sé þar að öðru leyti fyrir neðan allar hellur. Ekki þarf heldur að segja neinum að lífshættulegt geti verið að fara of nálægt bjargbrún. En í þeim tilfellum þar sem ósýnileg eða óvænt hætta er til staðar, eins og við lundaholurnar á Látrabjargi, þar sem menn geta auðveldlega misstigið sig á ystu brún, svo og í sambandi við lævísar öldutungurnar í Reynisfjöru, þar er sjálfsagt að geta um hættuna með áberandi hætti. Þar hefðum við þurft að vera fyrri til.

Eru fleiri þekktir ferðamannastaðir þessu marki brenndir?




Skoðun

Sjá meira


×