Grindvíkingar hafa ákveðið að skipta um bandaríska leikmenn í báðum meistaraflokksliðum sínum í Iceland Express deildunum. Karlakaninn, Andre Smith, fer heim af persónulegum ástæðum en kvennakananum, Charmaine Clark, var sagt upp vegna þess að hún stóð ekki undir væntingum. Þetta kemur fram á heimasíðu Grindavíkur.
Andre Smith hefur leikið vel með Grindavík í vetur og var með 21,6 stig og 7,0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Andre bað um að vera leystur undan samning vegna veikinda heima fyrir og stjórn körfuboltadeildar Grindavíkur varð við þeirri bón. Grindavík er búið að vinna alla leiki sína á tímabilinu.
Charmaine Clark var með 15,3 stig, 7,0 fráköst og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik en Grindavíkurliðið vann aðeins 1 af 6 leikjum sínum með hana innanborðs. Clark hitti aðeins úr 36 af 112 skotum (32 prósent) og tapaði 4,5 boltum að meðaltali í leik.
Bæði Grindavíkurliðin skipta um bandaríska leikmenn
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
