Skoðun

Krossfestingar nútímans

Brynjar Níelsson skrifar
Undanfarin misseri og ár hafa sprottið fram fólk með aðstoð fjölmiðla og borið nafngreinda einstaklinga sökum um refsiverða háttsemi sem á að hafa átt sér stað fyrir tugum ára. Nýjasta dæmið eru ásakanir á umdeildan mann, Gunnar Þorsteinnson, um kynferðisbrot, sem komu fram eftir að hann giftist umdeildri konu, Jónínu Benediktsdóttur. Þær ásakanir komu fram í kjölfar deilna innan trúfélagsins Krossins.

Réttarríkið gerir ráð fyrir því, að þeir sem telji að á sér hafi verið brotið með refsiverðun hætti geti kært verknaðinn til lögreglu. Lögreglu og ákæruvaldi ber þá að rannsaka málið og vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.

Samkvæmt lögum verða þeir sem ásaka annan um kynferðisbrot að kæra verknaðinn innan ákveðins frests, að öðrum kosti fer engin lögreglurannsókn fram. Ástæða þessara fyrningareglna er m.a. sú, að útlokað er oftast að leiða hið sanna í ljós ef langt er um liðið, og á það sérstaklega við í brotum þar sem sönnunarfærslan er byggð á munnlegum framburði meints geranda og þolanda. Auk þess er þekkt að veruleikinn og upplifun fólks breytist gjarnan eftir því sem árin líða frá atburðum, sérstaklega ef ósætti hefur komið upp milli aðila eða deilur.

Nú mun vera þannig að sex nafngreindar konur bera Gunnar Þorsteinsson sökum um kynferðisbrot. Enginn þeirra kærði meint brot Gunnars á sínum tíma til lögreglu eða hafa komið fram með þessar ásakanir fyrr en núna. Ásakanir þessara kvenna um kynferðisleg áreitni Gunnars eiga það sammerkt að vera um margt óljósar. Einnig bera yfirlýsingar sumra kvennanna þess merki að vera stuðningur við þá konu sem fyrst fór fram með ásakanir á hendur Gunnari. Jafnframt er ekki ljóst hvort allt það sem Gunnari er gefið að sök teljist kynferðisbrot í skilningi laga.

Það er undarleg þörf að fara fram nú með ásakanir á hendur Gunnari um kynferðislegar snertingar úr fortíðinni með þeim hætti sem gert er. Ég ætla ekki að gera lítið úr afleiðingum kynferðisbrota, jafnvel þótt þau brot teljist minniháttar. En skipulögð herferð á opinberum vettvangi eins sú sem beinist að Gunnari er ekki líkleg til að bæta andlega heilsu þessara kvenna, heldur þvert á móti. Umræða verður gjarnan óvægin og meiðandi fyrir alla, ekki bara fyrir konurnar og Gunnar, heldur einnig þá sem eru nákomnir þeim. Mér liði ekki betur með því að eyðileggja líf annars manns þótt ég telji hann hafa gert á minni hlut fyrir 25 árum síðan. Þessi aðferð kvennanna veldur því tortryggni og læðist sá grunur að mörgum að aðrar ástæður kunni að vera að baki, sérstaklega þegar litið er til aðdraganda og framsetningu ásakana á hendur Gunnari.

Ég var ekki á vettvangi fyrir 25 árum og veit því ekki frekar en aðrir landsmenn hvað er rétt eða rangt í þessu máli. Gunnar hefur neitað öllum kynferðislegum snertingar við þessar konur. Mér geðjast lítt af því að saka nafngreinda menn opinberlega í gegnum fjölmiðla um refsiverða háttsemi. Þeir menn munu aldrei geta sannað sakleysi sitt eins og hugsanlegt hefði verið hægt með lögreglurannsókn. Aðferð af þessu tagi samræmist ekki reglum réttarríkisins og líkist meira galdrafári fyrri alda.

Okkur íslendingum er tamt um þessar mundir að tala um bætt siðferði og mannréttindi. Er það merki um gott siðferði að saka mann opinberlega um refsiverða háttsemi í gegnum fjölmiðla og ráða til sín sérstakan talsmann til að sinna því starfi? Er það merki um gott siðferði að fjölmiðlar taki þátt og ýti undir ásakanirmeð umfjöllun sinni? Er það virkilega svo í hinu nýja og siðlega Íslandi, að við teljum það í góðu lagi að bera menn fyrndum sökum og fá þá "dæmda" af samfélaginu með aðstoð fjölmiðla? Svona eru kannski galdrabrennur nútímans. Í þessu tilviki ætti kannski betur við að kalla þetta nútíma krossfestingu.

 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×