Handbolti

Gunnar: Vantar smá lukku í Mosfellsbæinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar, segir það skelfilegt að hafa tapað enn einum heimaleiknum í N1-deild karla.

Afturelding tapaði í kvöld fyrir toppliði Akureyrar í hörkuspennandi viðureign. Akureyri vann að lokum eins marks sigur, 25-24.

„Þeð er skelfilegt fyrir okkar áhorfendur sem mæta á völlin og styðja okkur í þessari baráttu. En það má ekki gleyma því að við vorum í kvöld að spila við toppliðið sem hefur enn ekki tapað leik," sagði Gunnar.

Afturelding spilaði mun betur í kvöld en í síðasta leik er liðið tapaði stórt fyrir FH.

„Það var okkar langlélegasti leikur síðan ég tók við liðinu. Frammistaða okkar þá var til skammar og ég er mjög ánægður með liðið og hvernig það kom til baka í kvöld. Það var ekki sjálfgefið."

„En það breytir því ekki að það var svakalega sárt að tapa þessu í kvöld. Okkur fannst líka að það hafi verið ansi mörg vafaatriði sem féllu þeim megin - án þess að ég ætli að fara kenna dómurunum um eitt eða neitt. Við misnotuðum tvö víti og þeir skoruðu þrisvar eftir frákast. Allt var þetta okkur mjög dýrkeypt í kvöld og það vantar kannski smá lukku til okkar í Mosfellsbæinn."

„Við leggjum okkar líf og sál í þetta og þess vegna er svo svakalega sárt að uppskera ekki meira en við höfum gert hingað til - sérstaklega á heimavelli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×