Skoðun

Púslmynd af brjóstakrabbameini

Ragnheiður Haraldsdóttir skrifar
Á fimmtudaginn birtist rannsóknargrein í hinu virta læknatímariti New England Journal of Medicine um árangur hópleitar að brjóstakrabbameinum í Noregi. Samkvæmt niðurstöðum á hópleitin minni þátt í lækkun dánartíðni en áður hefur verið talið. Í tíufréttum Ríkissjónvarpsins var þeirri spurningu varpað fram, hvort endurskoða þyrfti fjárframlög til hópleitarinnar hér á landi þar sem fjármunum væri e.t.v. betur varið með öðrum hætti.

Greinin er einn biti í hinni flóknu púslmynd um brjóstakrabbamein og ber að skoða hana sem slíka. Hún er ekki öll myndin. Aðrir góðir bitar í púslið eru m.a. merkar niðurstöður rannsókna á vegum Krabbameinsfélagsins, sem vakið hafa mikla athygli. En myndin er samt ófullgerð.

Stöðugt þarf að endurskoða áherslur í krabbameinsleitinni. Krabbameinsfélag Íslands hefur beint því til heilbrigðisyfirvalda að myndað verði sérstakt ráð sem meti hagkvæmni leitar að krabbameinum á frumstigi og veiti yfirvöldum ráðgjöf þar að lútandi. Leitin hér hefur verið talin til fyrirmyndar, en hún er framkvæmd samkvæmt samningi við heilbrigðisráðuneytið.

Krabbameinsfélagið fagnar rannsóknum á krabbameinum og hefur stutt vísindastarfið með ráðum og dáð í bráðum sextíu ár. Krabbameinsleitin er byggð á gagnreyndri þekkingu og viðamiklum vísindarannsóknum. Engin hópleit er eins vel rannsökuð og leitin að brjóstakrabbameinum. Skemmst er að minnast umfjöllunar í British Medical Journal nú síðsumars um mikla lækkun dánartíðni hér.

Viðbrögð við greininni í New England Journal of Medicine hafa verið áhugaverð. Fjöldi fræðimanna, meðferðaraðila og samtaka nota tækifærið til að benda á mikilvægi hópleitarinnar. Einn höfunda greinarinnar segist myndi fara í hópleit, væri hann kona. Greinin er innlegg í umræðuna, en ákvarðanir um að leggja niður mikilvæga þjónustu má ekki taka á grundvelli hennar. Öll samanburðarlönd okkar halda áfram að leggja mikla áherslu á þennan þátt þjónustunnar.

Krabbameinsfélag Íslands býr yfir mikilli þekkingu á hópleit að krabbameinum, og er reiðubúið að miðla henni og taka þátt í umræðunni. Á næstunni munum við kynna áherslur okkar varðandi krabbameinsvarnir kvenna í hinum hefðbundna bleika októbermánuði. Hvetjum við landsmenn til að tileinka sér þá fræðslu sem við bjóðum og leggja okkur lið við árangursrík verkefni.






Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×