Viðskipti erlent

Morten Lund viðurkennir svik við stjórnendur Nyhedsavisen

Morten Lund fyrrum eigandi Nyhedsavisen viðurkennir nú að hann hafi svikið stjórnendur Nyhedsavisen um launagreiðslur. Biður hann þá Svenn Dam og Morten Nissen Nielsen afsökunnar á athæfi sínu.

Í frétt af málinu í Jyllands-Posten í dag segir að eftir að Nyhedsavisen varð gjaldþrota þann 1. september gerðu Dam og Nielsen kröfu um að Lund borgaði þeim samtals 10 milljónir danskra kr. eða um 220 milljónir kr..

Þeir voru með samning í höndunum þar sem kveðið er á um að ef blaðið færi í þrot myndi Lund borga þeim ein árslaun hvorum auk starfslokagreiðslu.

Morten Lund hefur hingað til ekki viðurkennt þennan samning en á heimasíðu sinni hefur hann nú skipt um skoðun og segir svikin við Dam og Nielsen vera verstu mistök lífs síns.

Það kann að hafa áhrif á afsökun Lund að þeir Dam og Nielsen hafa gert kröfu um að Lund verði gerður gjaldþrota og á að taka það mál fyrir við Sjó- og kaupréttinn í Kaupmannahöfn á þriðjudag í næstu viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×