Körfubolti

Jakob með 24 stig fyrir Sundsvall í sigri á liði Helga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson lék vel með Sundsvall í kvöld.
Jakob Sigurðarson lék vel með Sundsvall í kvöld. Mynd/Daníel
Jakob Sigurðarson og félagar í Sundsvall Dragons unnu 84-77 sigur á Helga Már Magnússon og félögum í Solna Vikings í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Jakob var stigahæstur í liði Sundsvall.

Sundsvall Dragons byrjaði vel var 25-12 yfir eftir fyrsta leikhlutann og var síðan 29-16 yfir í byrjun annars leikhluta.

Solna Vikings átti þá frábærar fimm mínútur sem liðið vann 19-5 og komst yfir í leiknum, 35-34. Sundsvall svaraði með góðum lokaspretti í hálfleiknum sem færði liðinu 39-35 forustu í leikhléi.

Sundsvall var síðan áfram með frumkvæðið í þriðja leikhluta og var 63-59 yfir fyrir lokaleikhlutann. Í lokaleikhlutanum náði Sundsvall tíu stiga forskoti en Solna-liðið kom sér aftur inn í leikinn.

Jakob skoraði mikilvæg stig á lokamínútunum þegar Sundsvall landaði góðum sjö stiga sigri. Eftir þennan sigur er Sundsvall í 3. sætinu tveimur stigum á eftir Solna.

Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í liði Sundsvall með 24 stig en hann hitti úr 8 af 15 skotum þar af 3 af 7 fyrir utan þriggja stiga línuna. Jakob var einnig með 3 fráköst og 2 stoðsendingar.

Helgi Már Magnússon var í villuvandræðum í leiknum og lék aðeins í rúmar 14 mínútur. Auk 5 villna var Helgi með 2 stig og 4 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×