Körfubolti

Jón Arnór hefur alltaf byrjað á sigri á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Stefán

Jón Arnór hefur unnið sinn fyrsta leik á tímabili öll þrjú árin sín á Ítalíu með Napoli 2005-2006 og Lottomatica 2007-2008. Jón Arnór leikur sinn fyrsta leik með Benetton Treviso í kvöld þegar liðið tekur á móti Banca Tercas Teramo í Palaverde-höllinni í Treviso.

Svo skemmtilega vill til að fyrsti leikur Jóns Arnórs í ítalska körfuboltanum var einnig á móti Teramo þegar hann lék með Napoli haustið 2005. Napoli vann þá 94-91 sigur á útivelli og Jón Arnór skoraði 4 stig og gaf 3 stoðsendingar.

Jón Arnór byrjaði frábærlega með Lottomatica Roma en í fyrsta leik sínum fyrir félagið þá skoraði hann 21 stig á 33 mínútum í sigri á Livorno 25. febrúar 2007. Jón Arnór hefur aldrei skorað meira í einum leik á Ítalíu.

Jón Arnór var síðan með 10 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar í sigri Lottomatica á Cimberio Varese í opnunarleik 2007-08 tímabilsins.

Leikurinn í kvöld verður 103. leikur Jóns Arnórs í ítölsku deildinni en hann hefur skorað 734 stig í þeim 100 leikjum sem hann heufr spilað í sem gera 7,34 stig að meðaltali í leik. Jón Arnór hefur spilað 22,4 mínútur að meðaltali í þessum leikjum.

Leikur Benetton Treviso og Banca Tercas Teramo hefst klukkan 20.30 að ítölskum tíma eða klukkan 18.30 að íslenskum tíma. Það verður hægt að fylgjast með tölfræði leiksins í beinni á heimasíðu ítölsku deildarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×