Körfubolti

Norræn bakvarðasveit hjá liði Granada á þessu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teemu Rannikko í leik með Finnum á móti Frökkum.
Teemu Rannikko í leik með Finnum á móti Frökkum. Mynd/AFP

Spænska liðið CB Granada verður með norræna bakvarðasveit á næsta tímabili því auk þess að semja við Jón Arnór Stefánsson hefur liðið fengið til sín Finnann Teemu Rannikko. Rannikko hefur spilað með rússneska liðinu Khimki BC undanfarin tvö tímabil.

Teemu Rannikko hefur átt mjög farsælan feril í bestu deildum Evrópu, hann lék með ítölsku liðunum Reggio Emilia (2000-02), Roseto Basket (2002-03) og Scavolini Pesaro (2003-05) áður en hann fór til Slóveníu og varð meistari með Union Olimpija. Rannikko spilaði síðan með rússneska liðinu Khimki BC frá 2007 til 2009 en fékk ekki alltof mörg tækifæri í fyrra.

Teemu Rannikko er 29 ára gamall og 189 sentímetrar og spilar venjulega sem leikstjórnandi. Hann hefur leikið 71 landsleik fyrir Finna frá 1997 og skorað í þeim 789 stig.

Teemu Rannikko var meðal annars með 15,3 stig og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í fjórum leikjum á móti Frökkum og ítölum í baráttunni um síðasta sætið inn á Evrópumótið í Póllandi sem hófst í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×