Körfubolti

Gríska liðið Panathinaikos vann Euroleague

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Panathinaikos fagna sigri í kvöld.
Leikmenn Panathinaikos fagna sigri í kvöld. Mynd/AFP

Gríska liðið Panathinaikos er besta körfuboltalið Evrópu eftir 73-71 sigur á rússneska liðinu CSKA Moskvu í úrslitaleik í Berlín í kvöld. Þetta er í fimmta sinn sem Panathinaikos verður Evrópumeistari en CSKA vann Euroleague í fyrra.

Panathinaikos var nærri því búið að missa niður 23 stiga forustu í seinni hálfleiknum en Dimitris Diamantidis og Sarunas Jasikevicius settu niður þrjú víti á síðustu tíu sekúndum leiksins og CSKA-maðurinn Ramunas Siskauskas klikkaði síðan á lokaskoti leiksins.

Vassilis Spanoulis hjá Panathinaikos var valinn besti leikmaður úrslitanna en hann skoraði 13 stig í úrslitaleiknum og var stigahæstur hjá liðinu ásamt Antonis Fotsis. Dimitris Diamantidis og Sarunas Jasikevicius skoruðu báðir tíu stig fyrir gríska liðið.

Zeljko Obradovic, þjálfari Panathinaikos, vann þarna Evrópumeistaratitilinn í sjöunda sinn á ferlinum. Hann gerði Partizan Belgrade að meisturum 1992, vann með Joventut Badalona 1994 og með Real Madrid 1995. Hann hefur síðan unnið Evróputitilinn fjórum sinnum með Panathinaikos (2000, 2002, 2007 og 2009).

J.R. Holden skoraði mest fyrir CSKA eða 14 stig en Ramunas Siskauskas og Trajan Langdon skoruðu báðir 13 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×