Körfubolti

Henning: Töpuðum í fyrri hálfleik

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Henning Henningsson
Henning Henningsson
Henning Henningsson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta var vonsvikinn með að landsliðið hafi ekki haft trú á því að geta sigrað Svartfjallaland fyrr en það var orðið of seint.

"Skotnýtingin í fyrri hálfeik var ávísun á að tapa þessum leik. Við töpuðum þessum leik strax í fyrri hálfleik og það er vegna vanmats á eigin getu og það gerir það að verkum að við náðum aldrei að komast almennilega inn í leikinn," sagði Henning eftir tapið gegn Svartfjallalandi í dag.

"Við höfðum ekki trú á því að við gætum í raun unnið þetta lið. Mínar stelpur eru mjög góðir íþróttamenn og í mjög góðu formi og ef þær hefðu trú á sjálfum sér gætu þær mun betur en þetta."

"Seinni hálfleikurinn er jafn þannig að við töpuðum honum ekki sem var markmið sem við settum okkur í hálfleik. Það var í raun mjög gott og ég held að þær stóru hafi ekki átt von á þessari mótspyrnu frá okkur í seinni hálfleik. Ég er mjög sáttur við það og í heildina var þetta allt í lagi."

"Þær eiga að hafa trú á að þær geti unnið þessi lið og þrír sigrar hefði verið fyllilega raunhæft. Það hefði verið það sem átti að gerast í þessum riðli, við áttum að vinna þrjá leiki," sagði Henning sem sagði framtíð landsliðsins vera óráðna.

"Það er hvorki búið að taka ákvörðun um það hvort ég verði áfram með liðið né hvort liðið verði með í næstu keppni. Ástandið í þjóðmálum er eins og að er og það er ekki víst hvort það verði fjármagn fyrir það."

"Við þurfum að vera áfram með kvennalandslið. Það eru tíu góðir leikmenn fyrir utan hópinn. Við eigum fleiri góða leikmenn en stelpurnar gera sér grein fyrir. Við erum góða íþróttamenn í þessari íþrótt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×