Viðskipti erlent

Olíukaupmenn vilja leigja 10 risatankskip sem geymslupláss

Olíukaupmenn vilja leigja 10 risatankskip sem geymslupláss undir olíu. Þar með yrði magn olíu sem geymt er í tankskipum á sjó jafnmikið og nemur 5 daga heildarnotkun allra landa innan Evrópusambandsins.

Í frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni segir að um 25 tankskip, sem hvert um sig getur borið 2 milljónir tunna af olíu, séu nú þegar í leigu sem geymslupláss undir olíu. Ef 10 tankskip bætast í hópinn muni það þýða að 7% af öllum olíutankskipaflota heimsins sé notaður sem geymslupláss.

Ástæðan fyrir þessum áhuga olíukaupmanna á að leigja tankskipin er einfaldlega að heimsmarkaðsverð á olíu er lágt um þessar mundir og kaupmennirnir reikna með að það fari hækkandi þegar líður á árið.

Mánaðarleiga á risatankskipi samsvarar nú 90 sentum á hverja olíutunnu, að vísu mismunandi eftir lengd leigusamningsins. Hinsvegar er reiknað með að verðið á olíutunnunni fari úr núverandi tæpum 50 dollurum á tunnuna og í yfir 70 dollara í desember n.k..








Fleiri fréttir

Sjá meira


×