Erlent

Ekki horfa á mig segir yfirmaður filippseyska herráðsins

Óli Tynes skrifar
Gloria Macapagal Arrayo, forseti Filipseyja.
Gloria Macapagal Arrayo, forseti Filipseyja.
Æðsti hershöfðingi hersins á Filippseyjum sagði stjórnarandstöðunni í dag að hætta að hvetja hermenn til þess að taka undir kröfur um að Gloriu Macapagal Arrayo, forseta landsins verði steypt af stóli.

Forsetinn er sökuð um að hafa þegið mútur frá kínversku fjarskiptafyrirtæki. Yfirmaður filippseyska herráðsins sagði fólki að hætta að biðja um íhlutun hersins. "Því meira sem herinn skiptir sér af þjóðmálum þeim mun veikara verður lýðræðið."

Hershöfðinginn bætti því við að herinn gæti ekki gripið í taumana í hvert skipti sem pólitískar deilur koma upp.

Þarna kveður í nýjan tón, þar sem herinn á Filippseyjum hefur einmitt haft afskipti af stjórnmálum á liðnum áratugum.

Hann lék lykilhlutverk í að steypa tveim forsetum af stóli, auk þess sem einstakir hópar foringja hafa gert margar misheppnaðar byltingatilraunir. Meðal annars þrjár gegn Arrayo.

Forsetinn er þó talin traust í sessi, ekki síst þar sem hún nýtur stuðnings hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×