Erlent

Báðir flugmennirnir sofandi

Óli Tynes skrifar
Zzzzzzzzz
Zzzzzzzzz

Talið er að báðir flugmenn farþegaþotu á Hawaii hafi sofnað undir stýri á leiðinni frá Honolulu til Hilo, í síðustu viku. Vélin var frá flugfélaginu Go! Airlines. Þegar hún nálgaðist Hilo tóku flugumferðarstjórar eftir því að hún byrjaði ekki að lækka flugið.

Vélin var því kölluð upp, en ekkert svar barst. Furðu lostnir fylgdust flugumferðarstjórarnir með því að hún sigldi framhjá flugvellinum í 21 þúsund feta hæð.

Það var lýst yfir neyðarástandi og stanslaust reynt að ná sambandi við flugmennina. En ekkert svar.

Loks þegar vélin hafði flogið á haf út í 25 mínútur var henni snarlega snúið við og lenti heilu og höldnu á Hilo. Þotan mun hafa verið full af farþegum, en ekki eru nefndar tölur um fjölda.

Flugfélagið hefur ekki viljað tjá sig um ástæðuna fyrir þessu. Fyrrverandi flugmenn þess hafa hinsvegar sagt að það reki starfsfólk sitt áfram eins og hægt sé og fari lítið eftir um reglum um hámarks vinnutíma. Málið er nú til rannsóknar hjá flugmálayfirvöldum vestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×