Erlent

Enginn vill Ungdómshús í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar
Kaupmannahafnarbúar eru orðnir þreyttir á óeirðum ungmenna.
Kaupmannahafnarbúar eru orðnir þreyttir á óeirðum ungmenna.

Stuðningur Kaupmannahafnarbúa við nýtt Ungdómshús fer dvínandi. Miklar óeirðir urðu í borginni á síðasta ári þegar borgaryfirvöld misstu loks þolinmæðina og létu rífa gamla húsið.

Í skoðanakönnun mánuði áður en húsið var rifið voru 57 prósent borgarbúa fylgjandi því að fólkið fengi nýtt hús til umráða.

Eftir óeirðirnar sem fylgdu í kjölfarið minnkaði sá stuðningur. Og eftir sífelldar óeirðir undanfarnar vikur er stuðningurinn kominn niður í 48 prósent.

Þetta gleður marga stjórnmálamenn. Til dæmis Piu Allerslev aðstoðarborgarstjóra sem fer með menningar- og tómstundamál.

Hún segir; "Margir Kaupmannahafnarbúar skilja ekki hversvegna örsmár hópur ofbeldisfullra unglinga á að fá milljónir króna fyrir nýju húsi. Ég hef frá upphafi verið á móti því. Og ég gleðst yfir að Kaupmannahafnarbúar skuli vera að skipta um skoðun."

Eitt vandamál borgaryfirvalda við lausn málsins er að jafnvel þeir sem eru hlynntir nýju Ungdómshúsi vilja ekki fá það í sitt hverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×