Erlent

Þjóðverjar neita að fara á bardagasvæði í Afganistan

Óli Tynes skrifar
Breskir hermenn eru í fremstu víglínu í Afganistan. Þangað vilja þjóðverjar ekki fara.
Breskir hermenn eru í fremstu víglínu í Afganistan. Þangað vilja þjóðverjar ekki fara.

Þjóðverjar synjuðu í dag beiðni Bandaríkjamanna um að senda hermenn til hættulegra svæða í Suður-Afganistan.

Franz Josef Jung, varnarmálaráðherra, sagði að hann sæi ekki fyrir sér að gerðar yrðu breytingar á samþykkt þingsins um það umboð sem þýski herinn fékk til að starfa í Afganistan.

Þýsku hermennirnir eru í norðurhéruðum landsins, sem eru til þess að gera friðsamleg.

Bandaríkjamenn, Bretar, Hollendingar og Kanadamenn hafa borið hitann og þungann af öllum bardögum í Afganistan. Þeirra hersveitir eru staðsettar í hinu róstusama suðri. Önnur NATO ríki halda hersveitum sínum fyrir norðan.

Ríkin fjögur eru orðin nokkuð þreytt á þessu fyrirkomulagi. Kanadamenn eru svo þreyttir að þeir hafa hótað að kalla hersveitir sínar frá Afganistan á næsta ári, ef ekki verður breyting á.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna , skrifaði því öðrum NATO ríkjum hvassyrt bréf þar sem hann bað um aukið liðsinni. Viðbrögð Þjóðverja liggja nú fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×