Erlent

Hamas fá ekki landamæravörslu

Óli Tynes skrifar
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna.

Mahmoud Abbas forseti Palestínumanna synjaði í dag kröfum Hamas samtakanna um yfirráð fyrir landamærum Gaza strandarinnar að Egyptalandi.

Hamas hrifsuðu völdin á ströndinni í júní síðastliðnum og hröktu Abbas og liðsmenn hans þaðan með vopnavaldi.

Í síðustu viku sprengdu liðsmenn Hamas gat á múr á landamærum Gaza og Egyptalands. Tugþúsundir Palestínumanna streymdu þá yfir landamærin til þess að kaupa nauðsynjar sem eru af skornum skammti vegna lokunar á landamærunum að Ísrael.

Egyptar vilja loka landamærunum á nýjan leik, eða að minnsta kosti koma einhverri reglu á mannaferðir yfir þau. Þeir vilja að öryggissveitir Abbas forseta taki að sér eftirlitið.

Því vilja Hamas ekki una. Þegar Abbas hafnaði beiðni Hamas um yfirráð yfir landamærunum sagði hann að samtökin yrðu að hætta hernámi sínu á Gaza, taka á sig allar alþjóðlegar á skuldbindingar og fallast á nýjar kosningar.

"Eftir það eru hjörtu okkar opin fyrir hverskonar viðræðum," sagði forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×