Erlent

Bretaprins móðgar Kínverja ógurlega

Óli Tynes skrifar
Charles prins ásamt eiginkonu sinni Camillu.
Charles prins ásamt eiginkonu sinni Camillu.

Charles Bretaprins hefur sárlega móðgað kínversk stjórnvöld með því að lýsa því yfir að hann verði ekki við setningu Ólympíuleikanna síðar á þessu ári. Það er ekki síst hvernig Charles kom þessum skilaboðum á framfæri sem fær ráðamenn í Peking til þess að gnísta tönnum.

Prinsinum barst bréf frá samtökum sem berjast fyrir frelsi Tíbets, þar sem hann var spurður hvort hann yrði viðstaddur setningu Ólympíuleikanna. Stuðningsmennirnir óttast að leikarnir muni yfirgnæfa mannréttindabrot Kínverja.

Einkaritari prinsins svaraði bréfinu og sagði meðal annars; "Eins og þið vitið hefur hans hátign lengi fylgst með málefnum Tíbets af miklum áhuga. Hann hefur glaðst yfir að hitta hans heilagleika Dalai Lama við mörg tækifæri. Þið spyrjið hvort hans hátign verður viðstaddur setningu Ólympíuleikana í Peking árið 2008. Hans hátign verður ekki viðstaddur setninguna."

Í einkasamtölum hafa starfsmenn prinsins látið það berast að hann muni alls ekki fara til Kína meðan á leikunum stendur, hvorki við upphaf þeirra né endi, né þar í milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×